Bæjaryfirvöld ákváðu í kjölfar bæjarhátíðarinnar Í Túninu heima að boða til opins fundar með foreldrum og forsjáraðilum eldri bekkinga í grunnskólum bæjarins undir yfirskriftinni „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“. Það er hefð fyrir því að fræðslu- og frístundasvið boði til funda með foreldrum efri bekkinga á haustin en síðustu ár hafa fundirnir farið fram í fjarfundabúnaði. Vegna umræðunnar í samfélaginu og þeirrar stöðu sem kom upp í tengslum við bæjarhátíðina var ákveðið að hafa staðfund í Hlégarði. Mætingin var langt fram úr öllum væntingum en húsfyllir varð og þurfti að bæta við um 150 stólum til að koma öllum fyrir í rýminu.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri stýrði fundinum og fór yfir þá þjónustu sem bærinn veitir börnum og barnafjölskyldum auk þess að fara yfir aukningu í málum sem tengjast börnum og ungmennum. Vegna aukningar í barnaverndartilkynningum hefur bæjarstjórn óskað eftir tillögum að aðgerðum í tengslum við fjárhagsáætlunargerð næsta árs.
Kári Sigurðsson í færanlegu félagsmiðstöðinni Flotanum, Elísabet Ósk Maríusdóttir og Alexander Sigurðsson frá Samfélagslögreglunni og Guðrún Helgadóttir frá félagsmiðstöðinni Bólinu fluttu mjög hnitmiðuð og góð erindi með sterkum skilaboðum til foreldra.
Í lokin voru uppbyggilegar og góðar umræður undir stjórn Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur og gátu fundargestir með gagnvirkum hætti komið sínum skoðunum á framfæri. Foreldrar komu með 283 hugmyndir og hugleiðingar undir spurningunni „Hvað getum við sem foreldrar gert til að styðja við vellíðan og öryggi barnanna í samfélaginu okkar“ og 244 hugmyndir komu til Mosfellsbæjar um það „Hvernig Mosfellsbær getur stutt við foreldra“.
Mosfellsbær mun nýta þessa góðu punkta til að vinna að aðgerðaáætlun og forgangsraða verkefnum inn í fjárhagsáætlun ársins 2025.
Orðaský 1: Hvað getum við sem foreldrar gert til að styðja við vellíðan og öryggi barnanna okkar?
Orðaský 2: Hvernig Mosfellsbær getur stutt við foreldra?