Þann 8. október undirritaði Regína Ásvaldsdóttir fyrir hönd Mosfellsbæjar samninga um snjómokstur við tvo verktaka.
Annarsvegar vegna stofn- og tengibrauta og hinsvegar vegna húsagatna og bílaplana stofnana bæjarins. Ástæða þess að vetrarþjónustu var skipt upp í tvö útboð er að mismunandi tæki og verktaka þarf til þess að sinna þjónustunni.
Íslenska Gámafélagið mun sjá um vetrarþjónustu stofn- og tengibrauta í Mosfellsbæ samkvæmt samningnum sem var undirritaður og gildir fyrir árin 2024-2027 með möguleika á framlengingu um tvö ár, eitt ár í senn. Samningurinn er með bætt þjónustustig en frá fyrra útboði er búið að bæta við fleiri götum við stofn- og tengibrautir með ábendingar íbúa og stækkun sveitarfélagsins að leiðarljósi. Eins er verið að auka fjölda tækja sem sinna þjónustunni og sameina forgang 1 og 2 í forgang 1. Þetta þýðir að allri vinnu við mokstur stofn- og tengibrauta ætti að vera lokið fyrir kl. 8:00 á morgnana.
Einnig voru undirritaðir snjómoksturssamningar við Malbikstöðina vegna vetrarþjónustu húsagatna og bílaplana stofnana. Samningarnir gilda fyrir árin 2024-2027 með möguleika á framlengingu um tvö ár, eitt ár í senn. Í þessum samningum er einnig um þjónustuaukningu að ræða frá útboði ársins 2019 þar sem einungis bílaplön stofnana voru boðin út, en í útboði ársins 2024 voru húsagötur og bílaplön boðin út saman. Mikilvægt var að bjóða út hálkuvörn og mokstur helstu húsagatna þar sem ábendingar á liðnum vetri voru á þá leið að bæta þyrfti þessa þjónustu við íbúa. Hálkuvarnir og mokstur helstu húsagatna verða metnar hverju sinni af eftirlitsvakt og farið verður í fyrirbyggjandi aðgerðir og hálkuvarnir þannig að snjór safnist ekki upp í húsagötum og myndi klakabrynjur en viðmið um snjómagn í húsagötum sem miðaðist áður við 15 cm snjódýpt verður nú miðað við 10 cm snjódýpt. Í útboði 2019 var gert ráð fyrir að fjögur tæki sinntu mokstri bílaplana en í útboði 2024 verður gert ráð fyrir 6 tækjum þar sem helstu húsagötur bætast við ásamt Mosfellsdal.
Þjónustustöð Mosfellsbæjar sér um mokstur og hálkueyðingu á öllum stígum bæjarins og helstu gangstéttum í hverfum þar sem hægt er að koma því við. Allt stígakerfi bæjarins er í fyrsta forgangi og er miðað við að snjó og hálkueyðingu sé lokið fyrir kl. 7:30. Sérstök áhersla er lögð á allt stígakerfi til og frá skólum og íþróttamannvirkjum og einnig að svokallaður samgöngustígur sé að öllu jöfnu alltaf fær hjólandi og gangandi umferð.
Vinnan við útboð vetrarþjónustu Mosfellsbæjar var unnin með það að leiðarljósi að tryggja áfram góða vetrarþjónustu og bæta þjónustu í helstu húsagötum bæjarins i samræmi við ábendingar íbúa.
Upplýsingar um vetrarþjónustu í Kortasjá verða uppfærðar á næstunni í samræmi við þessar breytingar.