Íslensku menntaverðlaunin eru árleg viðurkenning fyrir framúrskarandi skólastarf eða umbætur í menntamálum og í ár voru tvær tilnefningar tengdar skólastarfi í Mosfellsbæ. Tilnefningar voru birtar í vikunni en verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn 5. nóvember næstkomandi á Bessastöðum.
Dóra Guðrún Wild
Dóra Guðrún Wild kennari við leikskólann Hlaðhamra í Mosfellsbæ fékk tilnefningu fyrir faglega og metnaðarfulla leikskólakennslu, meðal annars fyrir útinám og fyrir að auðga líf barna í Mosfellsbæ með fjölbreyttu lista- og menningarstarfi. Dóra Guðrún útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands 1984 og hefur starfað í leikskólanum Hlaðhömrum frá árinu 1995 og er þar deildarstjóri í dag. Henni er lýst sem einstökum leiðtoga, fyrirmynd og fagmanneskju.
Leikskólinn Hlaðhamrar starfar í anda Reggio Emilia stefnunnar og hefur Dóru Guðrúnu tekist einstaklega vel að nálgast öll námssvið leikskóla í gegnum leik, sköpun og jákvæð samskipti. Umhverfi deildarinnar sem Dóra Guðrún stýrir er lýst sem námshvetjandi og fallega upp settu. Á undanförnum árum hefur Dóra Guðrún sinnt útinámi með elstu börnum skólans síðasta vorið þeirra í leikskólanum. Börnin fara meðal annars í langar göngur, fjallgöngur og náttúruskoðun og kynna sér menningu og listir.
Úr umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu:
Dóra er mikill leiðtogi í leikskólanum og án hennar væri leikskólinn ekki eins. Hún sinnir starfi sínu af miklum áhuga, fagmennsku og metnaði og er alltaf með velferð, starf, umhverfi og tækifæri barnanna í huga. Hún hugsar út fyrir kassann og aflar sér efniviðar í starf með börnunum ekki bara á sinni deild heldur fyrir allan leikskólann langt út fyrir sinni vinnutíma … Hún fær alla með sér, vinnur með styrkleika starfsfólks á deildinni þannig að það fái að njóta sín sem best og styður það í að vinna með þær hugmyndir sem það fær og koma þeim í framkvæmd … Það eru forréttindi að fá að vinna með kennara sem henni sem gerir mig að betri kennara á hverjum degi.
Snjallræði
Í flokknum þróunarverkefni fékk Helgafellsskóli tilnefningu fyrir verkefnið sitt Snjallræði sem nær frá leikskólastigi til unglingastigs. Verkefnið er úr smiðju Málfríðar Bjarnadóttur deildarstjóra við skólann.
Snjallræði er hönnunarstund þar sem nemendur skólans efla sköpunargáfu sína með mánaðarlegum áskorunum, þar sem þeir takast á við raunveruleg samfélagsvandamál eins og til dæmis plastmengun í sjónum og matarsóun. Nemendur glíma við hönnunaráskoranir í hópum og læra ferli hönnunar og hönnunarhugsunar þar sem reynir á samvinnu, samskipti og að hugsa út fyrir kassann.
Úr umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu:
Verkefnið á skilið að fá athygli fyrir að hvetja börn til að skapa og hanna í samvinnu við aðra, leitast við að finna lausnir á vandamálum, takast á við áskoranir á hugmyndaríkan máta og skoða málefni út frá fjölbreyttum sjónarhornum. Unnið er með samþættingu námsgreina og gleði ríkir í snallræðisviku þar sem skólinn allur er undirlagður verkefnavinnu nemenda.