Opinn fundur Atvinnu- og nýsköpunarnefndar var haldinn í Hlégarði 14. október síðastliðinn þar sem kynntar voru niðurstöður greiningar og boðið til samtals um Álfosskvos sem áfangastað. Sævar Birgisson formaður nefndarinnar stýrði fundinum og Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarðsvæðisins kynnti niðurstöður greiningarinnar ásamt Maríu Hjálmarsdóttur ráðgjafa. Fundurinn var vel sóttur en tæplega 70 manns tóku þátt.
Þegar fundargestir voru spurðir með gagnvirkum hætti að kynningu lokinni hver heildarupplifun þeirra á hugmyndum greiningarinnar væri svöruðu flest spennandi, góð og jákvæð.
Greiningin var unnin fyrir Mosfellsbæ í samstarfi við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Álafosskvosin er fallegt svæði með ríka sögu sem í gegnum tíðina hefur dregið til sín marga gesti, bæði innlenda og erlenda. Áhersla greiningarinnar var á að skoða meðal annars hvað gerir Álafosskvosina að áhugaverðum stað til að heimsækja, fyrir hvern svæðið er áhugavert, hvers konar gestir henta svæðinu og hvað væri hægt að gera til að efla svæðið.