Spennandi lóðir í suðurhlíðum Helgafells
Í boði eru 16 lóðir við Úugötu í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ. Allt eru það lóðir sem skipulagðar eru fyrir einbýlishús á tveimur hæðum.
Lóðirnar eru Úugata 31, 33, 35, 37, 39, 41, 43, 45, 47, 63, 65, 67, 73, 80, 84 og 88.
Úugata er í suðurhlíðum Helgafells og er eitt glæsilegasta byggingarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Lóðirnar sitja hátt í landinu og þaðan er mikið útsýni.
Í hverfinu er lögð áhersla á fjölbreytta byggð, vandaða umhverfismótun og góða tengingu við útivistarsvæði og ósnortna náttúru. Hverfið liggur vel við megin umferðarkerfi Mosfellsbæjar og er skammt frá miðbænum og allri þeirri þjónustu sem þar er í boði.
Sækja um lóð
Umsóknarfrestur rennur út kl. 16:00 þriðjudaginn 22. apríl 2025.
Úthlutunargögn
Lóðir og lágmarksverð
Lóðir verða afhentar í núverandi ástandi með óhreyfðu landi og því er brýnt að tilboðsgjafar kynni sér ástand þeirra. Götur eru frágengnar með tengingum við veitukerfi og rafmagn.
ATH. Hverri lóð verður úthlutað til þess aðila sem gerir hæst tilboð í viðkomandi lóð, enda uppfylli viðkomandi aðilar skilyrði um fjárhagslegt hæfi sem tilgreind eru í 3. gr. úthlutunarreglna Mosfellsbæjar og úthlutunarskilmálum sem gilda um lóðina.
Bæði einstaklingar og lögaðilar geta lagt fram tilboð í byggingarrétt lóða en hver umsækjandi getur þó aðeins lagt fram eitt gilt tilboð í hverja lóð. Geri umsækjandi fleiri tilboð en eitt í sömu lóðina er hann bundinn við hæsta tilboð sitt. Hver umsækjandi getur mest fengið tvær lóðir.
Nánari upplýsingar eins og mæliblöð, hæðarblöð, greinargerð deiliskipulags og uppdrættir er að finna á kortavef Mosfellsbæjar.
Spurt og svarað
Upplýsingar vegna umsókna um lóðir veitir Ómar Karl Jóhannesson lögmaður, omarkarl[hja]mos.is, og varðandi skipulag og byggingarskilmála veitir Kristinn Pálsson skipulagsfulltrúi, skipulag[hja]mos.is.