Ríflega 200 gestir mættu í félagsheimilið Hlégarð fimmtudaginn 27. mars þegar efnt var til Sögukvölds undir yfirskriftinni Álafossull er á við gull.
Bjarki Bjarnason rithöfundur tók á móti gestum en umfjöllunarefni kvöldsins var ullarverksmiðjan á Álafossi í máli og myndum. Viðmælendur Bjarka voru Magnús Guðmundsson, Linda Björk Stefánsdóttir og Bjarni Ásgeirsson sem þekkja vel til sögu og samfélagsins á Álafossi.
Félagar úr Leikfélagi Mosfellssveitar fönguðu tíðarandann og Álafosskórinn tók lagið. Kórinn var stofnaður árið 1980 sem starfsmannakór við ullarverksmiðjuna Álafoss og hefur starfað óslitið síðan. Boðið var upp á kaffi og veitingar í hléi og mikil ánægja var með kvöldið meðal viðstaddra.
Sögukvöldið var unnið í samvinnu við Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar, menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar og Hlégarð, og var hluti af Menningu í mars, verkefni á vegum Mosfellsbæjar sem hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum. Er þetta í þriðja sinn sem slíkt sögukvöld er haldið en áður hefur verið fjallað um heita vatnið í sveitinni og fjölbreytta nýtingu þess, og hernámsárin í Mosfellsveit. Kvöldin hafa heldur betur slegið í gegn og fullt hefur verið út úr dyrum hverju sinni.
Tengt efni
Menning í mars í Kjarna laugardaginn 22. mars 2025
Menningin í Mosfellsbæ lyftir upp andanum í mars
Menning í mars hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og styðja þau sem að því standa við að kynna sig.
Menning í mars 2025