Mosfellsbær og sex íþrótta- og tómstundafélög hafa endurnýjað samstarfssamninga fyrir tímabilið 2025 til 2027.
Samningarnir byggja á fyrri samningum, áherslum íþrótta- og tómstundanefndar og samtölum starfsmanna menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs við forystu félaganna. Sérstök áhersla er nú lögð á að stuðla að auknu framboði íþrótta og tómstunda fyrir börn með sértækar þarfir og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Um er að ræða eftirfarandi félög:
- Hestamannafélagið Hörð
- Björgunarsveitina Kyndil
- Ungmennafélagið Aftureldingu
- Skátafélagið Mosverja
- Motocrossfélag Mosfellsbæjar
- Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar
Auk ofangreindra félaga er í gildi samstarfssamningur við Golfklúbb Mosfellsbæjar sem gildir út árið 2027.
Að lokinni undirritun samninganna var haldin vinnustofu þar sem að ofangreind félög auk Golfklúbbs Mosfellsbæjar hófu undirbúning þess að koma á laggirnar samstarfsvettvangi íþrótta- og tómstundafélaga í Mosfellsbæ.
Undirritun samninganna fór fram í Íþróttamiðstöðinni Kletti fimmtudaginn 27. febrúar síðast liðinn og fór vinnufundurinn vegna mótunar samstarfsvettvangs íþrótta- og tómstundafélaga fram strax í kjölfar undirritunarinnar. Megin tilgangur þess vettvangs verður að styðja við og efla samstarf milli félaganna og styrkja þannig tómstunda – og íþróttastarf í Mosfellsbæ.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri, þakkaði öllum sem komu að samningagerðinni fyrir sitt framlag og félögunum fyrir frábært starf í þágu barna og ungmenna í Mosfellsbæ. Hún lýsti jafnframt yfir mikilli ánægju með vinnu við mótun samstarfsvettvangsins. „Þið vinnið frábært starf alla daga, ég veit það, en ég er sannfærð um að þið eigið eftir að vinna enn öflugra starf saman.“
Margt áhugavert var rætt á fundinum, meðal annars hvernig félögin gætu unnið saman að kynningarmálum og hvernig þau gætu saman hjálpað börnum og unglingum að finna íþróttir og tómstundir við sitt hæfi.
Efri mynd: Raggi Óla
Neðri mynd: Guðjón Svansson