Leikskólinn Reykjakot fagnaði 30 ára afmæli í dag og vígði við sama tilefni nýtt eldhús. Leikskólinn hefur stækkað og dafnað í gegnum tíðina og í dag eru um 85 börn þar á aldrinum 1-5 ára. Stjórnendur og starfsfólk Reykjakots hafa átt frumkvæði að og tekið þátt í fjölda þróunar- og frumkvöðlaverkefna í gegnum tíðina, bæði stórum sem smáum. Þannig hefur starfsfólk skólans komið að því að skrifa leikskólasögu bæjarins og tekið virkan þátt í þeirri nýbreytni og faglegu framþróun sem einkennt hefur leikskólastarf í Mosfellsbæ. Sökum þessa hefur oft verið leitað sérstaklega til Reykjakots í gegnum tíðina varðandi þátttöku í þróun nýrra kennslu- og starfshátta.
Verktakinn Mineral ehf sá um framkvæmdina á nýja eldhúsinu og notaðist við svokallaða Durisol kubba í burðarvirkið á nýju byggingunni sem er 97 fermetrar að stærð. Kubbarnir eru framleiddir úr sérvöldum endurunnum viði og síðan steingerðir með vistvænum aðferðum. Eldhúsið uppfyllir allar nýjustu kröfur sem gerðar eru til slíkra eldhúsa tengt aðgengismálum, byggingareglugerð, heilbrigðiseftirliti og vinnueftirliti svo eitthvað sé nefnt.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri var við vígsluna og færði starfsfólki blómvönd og gjöf og óskaði starfsfólki, börnum, foreldrum og öllum velunnurum skólans til hamingju með 30 ára afmælið og nýja eldhúsið. Þá þakkaði hún starfsfólki skólans sérstaklega fyrir þeirra framlag og natni við að gera Reykjakot að þeim góða leikskóla sem hann er.
Á efstu mynd eru frá vinstri:
Ólöf Kristín Sívertsen sviðsstjóri fræðslu- og frístundarsviðs, Sardar Ibrahem Davoody matartæknir/matreiðslumaður, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Kristlaug Þ. Svavarsdóttir starfandi leikskólastjóri Reykjakots og Iryna Belozor aðstoðarmatráður.
Iryna Belozor aðstoðarmatráður og Sardar Ibrahem Davoody matartæknir/matreiðslumaður.
Myndir: Alexía Guðjónsdóttir