Mosfellsbær vinnur að innleiðingu á verkefninu Barnvænt sveitarfélag í samvinnu við Unicef á Íslandi í fyrsta sinn.
Barnvæn sveitarfélög er alþjóðlegt verkefni (e. Child Friendly Cities Initiative – CFCI) sem hefur það að markmiði að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til þeirra réttinda og unnið sé samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allri ákvarðanatöku, stefnu og vinnu innan sveitarfélagsins. Markmiðið með innleiðingu á Barnvænu sveitarfélagi er að eiga markvisst samráð og í samvinnu við börn og ungmenni varðandi þjónustu sveitarfélagsins.
Innleiðingin er unnin í átta skrefum eins og má sjá hér:
Innleiðingarferlið getur tekið að minnsta kosti tvö ár en að þeim tíma loknum getur sveitarfélagið sótt um viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Viðurkenningin gildir í þrjú ár en sveitarfélagið þarf að halda innleiðingunni stöðugt áfram og fara í gegnum skrefin átta aftur, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að þeim þremur árum liðnum.
Hluti af skrefi 2 er barna- og ungmennaþing og var það haldið þann 13. apríl í Hlégarði í Mosfellsbæ og voru þátttakendur nemendur í 5.-10. bekk í skólum Mosfellsbæjar. Rúmlega 90 manns tóku þátt í þinginu og voru það fulltrúar ungmennaráðs sem voru gestgjafar og settu þingið. Nemendur úr Framhaldsskóla Mosfellsbæjar (FMOS) voru borðstjórar og ráðgjafar frá KPMG aðstoðuðu við framkvæmd og úrvinnslu. Kraftur, gleði og samheldni var allsráðandi á þessum sólríka degi og voru þátttakendur sammála um að dagurinn hafi heppnast vel.
Helstu niðurstöður umræðna á þinginu voru innanbæjarstrætó, fleiri stuðningsfulltrúar í skólum, aukin fræðsla um andlega heilsu, betri matur og betri leikvelli fyrir boltaíþróttir.
Ungmennaráð kynnti niðurstöður þingsins á fundi með bæjarstjórn í upphafi á nýju skólaári þann 6. september 2023. Áframhaldandi vinna með niðurstöður þingsins í samráði við ungmennaráð verður skólaárið 2023-2024 og næstu skref í innleiðingu tekin.