Árlegur sameiginlegur fundur Ungmennaráðs og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar fór fram þann 6. maí 2025. Þar kynntu fulltrúar Ungmennaráðs helstu verkefni vetrarins og ræddu áherslur sínar og hugmyndir um bætta þjónustu fyrir börn og ungmenni í bænum.
Ungmennaráð Mosfellsbæjar stendur árlega fyrir þessum fundi þar sem bæjarfulltrúar eru boðnir sérstaklega á fund ráðsins. Á dagskrá voru meðal annars kynningar á fjölbreyttum verkefnum vetrarins og afurðum málþings ungmenna sem haldið var í apríl síðastliðnum.
Hrós frá Ungmennaráði
Ungmennaráð Mosfellsbæjar færði sérstakar þakkir fyrir frábært samstarf síðustu ár bið bæjarstjórn og Mosfellsbæ. Samstarfið hefur gert mögulegt að koma á framfæri hugmyndum og hrinda í framkvæmd fjölbreyttum verkefnum sem bæta Mosfellsbæ fyrir ungt fólk.
Nokkur af þeim verkefnum sem ungmennaráðið vildi hrósa sérstaklega fyrir:
- Hopp rafskútur
- Lengdur opnunartími í sundlaugum á virkum dögum
- Lengdur opnunartími í Bólinu
- Strætómiðar fyrir nemendur í skólum bæjarins
- Bergið Headspace – geðheilbrigðisúrræði fyrir ungt fólk
- Launahækkun í Vinnuskólanum
- 500.000 kr. framlag til ungmennaráðs
Fjölbreytt og öflugt starf
Ungmennaráð hefur átt fundi í vetur með fjölmörgum aðilum, meðal annars frá Strætó bs., UNICEF, Umboðsmanni barna, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og starfsfólki Mosfellsbæjar. Markmið fundanna hefur verið að veita ungu fólki vettvang til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka þátt í mótun samfélagsins.
Í apríl hélt ráðið vel heppnað málþing þar sem fjöldi hugmynda og tillagna var settur fram — margar þeirra voru nýttar sem grunnur að umræðum á fundinum með bæjarstjórn.
Helstu tillögur Ungmennaráðs 2025
Samgöngur og aðgengi
- Bæta aðgengi fatlaðra að strætó.
- Samræma strætóleiðir (7 og 15) innan Mosfellsbæjar.
- Tryggja að skólatímar og strætótímar passi saman.
Skólalíf og aðstaða
- Endurnýja brettapall sem lofað var en hefur ekki verið reistur.
- Setja upp körfuboltavelli við alla skóla.
- Samræma matartilboð milli skóla – t.d. með morgunmat eins og hafragraut og möguleika á að kaupa hollan mat (t.d. skyr, boost, ávexti).
- Meta þátttöku í Ungmennaráði sem valfag.
- Gera skólasund valkvætt fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.
- Bæta aðstöðu fyrir tónlistar- og samspilsæfingar.
Umhverfi og viðburðir
- Auka lýsingu á göngustígum og fjölga ruslatunnum.
- Nýta sumarið betur til að skreyta bæinn og skipuleggja fleiri smærri viðburði.