Þriðjudaginn 20. maí fer fram kosning í lýðræðisverkefninu Krakka Mosó 2025, þar sem börn og unglingar á mið- og unglingastigi grunnskóla Mosfellsbæjar fá tækifæri til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Verkefnið er hluti af Okkar Mosó, samráðsverkefni bæjarins og íbúa um forgangsröðun framkvæmda.
Nemendur lögðu fram hugmyndir að umbótum á þremur opnum svæðum, Ævintýragarðinum, Stekkjarflöt og svæði við Rituhöfða. Áhersla var lögð á leik, hreyfingu, samveru og lýðheilsu. Hugmyndasöfnunin stóð yfir dagana 28. og 29. apríl síðastliðinn og alls bárust rúmlega 400 tillögur frá krökkum.
Úrvinnslu hugmynda er lokið og hefur kynning farið fram á þeim verkefnum sem kosið verður um, en þau eru stór aparóla, jarðvegshjólabraut, parkour þrautir, snúningsróla með fjórum örmum og sætum, þrautabraut á vatni og blak-, padel- og tennisvöllur.
Á kjördag verður íslenski fáninn dreginn að húni við skólana og eru 1.179 nemendur á kjörskrá. Tveir fulltrúar frá miðstigi og tveir fulltrúar frá unglingastigi mynda kjörstjórn hvers skóla auk formanns nemendaráðs í hverjum skóla fyrir sig. Kjörstjórn annast eftirlit með framkvæmd kosninganna og stýrir talningu atkvæða með stuðningi starfsfólks hvers skóla og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs Mosfellsbæjar.
Niðurstöður kosninganna verða kynntar í Helgafellsskóla kl. 16:00 á kjördag.
Til framkvæmdanna verður varið um 20 milljónum króna og var verkefnið unnið í nánu samstarfi við grunnskóla bæjarins. Með þessu stígur Mosfellsbær mikilvægt skref í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og eflir lýðræðislega þátttöku barna.