Fulltrúar í ungmennaráði Mosfellsbæjar, þau Eyrún Birna Bragadóttir, Edda Steinunn Erlendsdóttir Scheving, Katrín Vala Arnarsdóttir Linden og Sigurður Óli Karlsson, funduðu í gær, miðvikudaginn 6. september, með bæjarstjórn Mosfellsbæjar og bæjarstjóra ásamt þeim Eddu Davíðsdóttur og Ísak Viktorssyni starfsfólki fræðslu- og frístundasviðs.
Fulltrúarnir fóru yfir helstu atriðin sem komu fram á barna- og ungmennaþingi sem haldið var í Mosfellsbæ 13. apríl sl. á vegum verkefnisins Barnvænt sveitarfélag. Ungmennaráð var gestgjafi á þinginu og í hlutverki umræðustjóra en 90 nemendur í 5. – 10. bekk í skólum Mosfellsbæjar tóku þátt. Mosfellbær vinnur að innleiðingu á verkefninu Barnvænt sveitarfélag sem byggir á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Dæmi um áherslur frá barna- og ungmennaþinginu sem voru ræddar á fundinum með bæjarstjórn voru meðal annars strætisvagnasamgöngur í Mosfellsbæ og aðrar samgöngur eins og rafhlaupahjól. Þá var einnig rætt um málefni barna með sérþarfir, s.s. lesblindra nemenda og barna og unglinga með ADHD, umhverfismál og mismunandi kennsluhætti í grunnskólum bæjarins. Auk þess var fjallað um opnunartíma félagsmiðstöðva og sundlauga, ungmennahús og hugmynd ungmennaráðs um ungmennaseríu, stigakeppni fyrir alla aldurshópa í tengslum við skóla og vinnuskóla.
Formaður stýrihóps um Barnvænt sveitarfélag, Anna Sigríður Guðnadóttir, fór yfir næstu áfanga í vinnunni að því að Mosfellsbær fái viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag en ungmennaráðið er mikilvægur þátttakandi í þeirri vinnu. Næstu skref eru að stýrihópurinn mun skila inn greinargerð til UNICEF og vinna aðgerðaáætlun út frá áherslumálum barna- og ungmennaþingsins.
Fundurinn tókst mjög vel og samhljómur í því að það þyrfti að kalla ungmennaráðið oftar að borðinu þegar það væri verið að fjalla um mál sem tengjast börnum og ungmennum og það ætti bæði við starfsfólk Mosfellsbæjar og kjörna fulltrúa.
Tengt efni
Nýtt skipurit hjá Mosfellsbæ tekur gildi í dag
Í dag, 1. september 2023, tekur nýtt skipurit gildi hjá Mosfellsbæ.
Nýr forseti bæjarstjórnar er Örvar Jóhannsson
Á fundi bæjarstjórnar þann 21. Júní var Örvar Jóhannsson bæjarfulltrúi B lista, kjörinn í embætti forseta bæjarstjórnar til eins árs.
Vilt þú starfa með Ungmennaráði Mosfellsbæjar?
Ungmennaráð Mosfellsbæjar auglýsir eftir ungu fólki á aldrinum 16-25 ára til að starfa með þeim í vetur.