Nýtt ungmennaráð fyrir veturinn 2024-2025 fundaði á bæjarskrifstofum í síðustu viku þar sem þau ræddu meðal annars velferð ungmenna í Mosfellsbæ við Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra og Ólafíu Dögg Ásgeirsdóttur skrifstofustjóra umbóta og þróunar.
Samtalið tengist þeirri vinnu sem bæjaryfirvöld ákváðu að hefja í kjölfar stöðunar sem kom upp í tengslum við bæjarhátíðina Í Túninu heima og umræðunnar í samfélaginu undanfarið. Hluti af þeirri vinnu var opinn fundur þann 17. september síðastliðinn með foreldrum og forsjáraðilum eldri bekkinga í grunnskólum bæjarins undir yfirskriftinni „Það þarf heilt þorp til að ala upp barn”. Áherslumál fundarins var hvernig foreldrar og Mosfellsbær gætu stutt við og aukið velferð og öryggi barna. Mjög margar hugmyndir og ábendingar komu frá foreldrum og var ákveðið að fylgja þeim eftir með fundi með ungmennaráði til að ræða sömu mál.
Ungmennaráð fékk sömu spurningar og foreldar/forsjáraðilar fundarins og sköpuðust góðar umræður og voru margar góðar hugmyndir sem komu fram. Mikill samhljómur reyndist vera milli svara foreldra og fulltrúa í ungmennaráði. Hvað snýr að foreldrum þá var áhersla ungmennaráðs á samveru, góð samskipti og hafa skýran ramma í kringum útivistartíma, tölvur o.s.frv. Það sem snýr að Mosfellsbæ er upplýsingagjöf, fræðsla og að skapa tækifæri til samveru.
Mosfellsbær vinnur að gerð aðgerðaáætlunar og forgangsröðunar verkefna í tengslum við bókun bæjarstjórnar þann 28. ágúst síðastliðinn sem var svohljóðandi:
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar tekur undir bókun velferðarnefndar og lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu fjölgunar barnaverndarmála og leggur ríka áherslu á að farið verði í markvissar aðgerðir í þágu forvarna í samstarfi þeirra aðila sem koma að uppeldi og velferð barna. Tillögur þess efnis liggi fyrir við framlagningu fjárhagsáætlunar.
Ábendingar og hugmyndir ungmennaráðs og foreldra verða nýttar í þeirri vinnu ásamt vinnu sérfræðinga í málefnum barna og ungmenna á velferðarsviði og fræðslu- og frístundasviði.
Tengt efni
Ungmennaráð fundaði með bæjarstjórn 29. maí 2024
Samkomulag um vinnu við deiliskipulag vegna stækkunar golfvallar
Skýrsla um þarfagreiningu þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá lögð fyrir bæjarráð
Stýrihópur um endurskoðun þarfagreiningar fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu að Varmá hefur skilað af sér skýrslu sem var lögð fyrir bæjarráð 18. apríl 2024.