Starfsemi
Svæðið gerir ráð fyrir fjölbreyttum þjónustukjarna í þágu barna og fjölskyldna. Barna og fjölskyldustofa gerir ráð fyrir að flytja skrifstofu sína á svæðið og þar verði m.a. veitt búsetuúrræði fyrir börn og ungmenni ásamt meðferðareiningu fyrir ungmenni. Þá er gert ráð fyrir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Ráðgjafar- og greiningarstöð auk þess að sjálfstætt starfandi aðilar og félagasamtök, sem starfa í þágu barna og fjölskyldna, verði með sína starfsemi á svæðinu.
Markmið
- Skapa barnvænt umhverfi með áherslur á gæði byggðar, almenningsrýma og gróðurs.
- Móta byggð í sátt við þá byggð sem fyrir er og tekur tillit til núverandi íbúa, veðurfars, hljóðvistar, birtuskilyrða og ofanvatnslausna.
- Að leik- og almenningssvæði Farsældartúns séu eftirsóknarverð fyrir alla og nýti kosti Borgarlínu fyrir fjölbreyttan ferðamáta.
- Samþætting byggðar og náttúru, samfélagsleg gæði, hringrásarhugsun, fjölbreyttan ferðamáta, stígatengingar við núverandi byggð sem og góðar tengingar við útivistar- og íþróttasvæði Mosfellsbæjar.
- Mynda umgjörð um fallega byggð sem mótast og byggist á löngum tíma og grundvallist á þremur þáttum sjálfbærni; samfélagi, efnahagi og umhverfi.
Skipulag
Farsældartún á að byggjast upp sem hlýlegt og fallegt umhverfi fyrir þá þjónustu sem þar verður veitt af hálfu opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila. Hver sú þjónusta er varðar börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra getur átt pláss á svæðinu, en nábýli mismunandi þjónustuveitenda og sérfræðinga er ómetanlegt þegar tilgangurinn er að veita barni og þeirra nánustu þjónustu með heildstæðum hætti. Í deiliskipulagi Farsældartúns verður gert ráð fyrir nýbyggingum sem verða sérhannaðar fyrir þá þjónustu sem þar á að veita en í Farsældartúni munu börn, ungmenni og fjölskyldur sækja fjölbreytta þjónustu, meðferðarúrræði og tímabundna búsetu og eða vistun.
Meðferðarheimili í Blönduhlíð
Nýtt meðferðarheimili fyrir ungmenni var kynnt á dögunum og stefnt er á opnun um miðjan desember. Það verður hýst tímabundið í Blönduhlíð í Farsældartúni. Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa lengi kallað eftir því að ríkið sinni sínum hlut í meðferðarstarfi fyrir börn og ungmenni en skortur hefur verið í nokkurn tíma á lögbundnum meðferðarúrræðum af hálfu ríkisins. Opnun Blönduhlíðar er því mikilvægt skref í þeirri vegferð að fjölga meðferðarúrræðum fyrir börn.