Fimmtudaginn 5. desember síðastliðinn var haldinn opinn íbúafundur um Farsældartún sem áður hét Skálatún. Fjölmargir íbúar hafa sýnt umræðunni um Farsældartún áhuga enda er farsæld barna og ungmenna málefni sem snertir alla.
Markmið fundarins var að upplýsa íbúa og aðra hagsmunaaðila um þá starfsemi sem er í mótun í Farsældartúni og framtíðarsýn svæðisins. Tæplega 100 manns sóttu fundinn.
Góðar umræður mynduðust og voru fundargestir almennt sammála um að Farsældartún verði mikil lyftistöng fyrir Mosfellsbæ þar sem fjölmargir sérfræðingar koma til með að starfa og veita ráðgjöf á svæðinu auk þess sem Mosfellsbær setji gott fordæmi fyrir önnur sveitarfélög með því að hafa farsæld barna og ungmenna að leiðarljósi.
Á fundinum kynnti Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar samninginn sem gerður var við Mennta- og barnamálaráðuneytið um starfsemi og skipulag í Farsældartúni. Sóley Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfseignarstofnunarinnar Farsældartúns fór yfir fyrirhugaða starfsemi og framtíðarsýn. Fulltrúar hönnunarteymis, Silja Traustadóttir frá Eflu og Magnea Guðmundsdóttir frá T Stiku, fóru yfir skipulag um uppbyggingu sem er í mótun í Farsældartúni. Að lokum kynnti Ólöf Á. Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu þá starfsemi sem er áætluð í Farsældartúni til framtíðar litið og starfsemi nýja heimilisins sem verður í bráðabirgðahúsnæði í Blönduhlíð.
Farsældartún á að byggjast upp með áherslu á hlýlegt og fallegt umhverfi fyrir þá þjónustu sem þar verður veitt af hálfu opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila. Í deiliskipulagi Farsældartúns verður gert ráð fyrir nýbyggingum sem verða sérhannaðar fyrir þá þjónustu sem þar á að veita en í Farsældartúni munu börn, ungmenni og fjölskyldur sækja fjölbreytta þjónustu, meðferðarúrræði og tímabundna búsetu og eða vistun. Einnig er gert ráð fyrir þjónustubyggingum fyrir skrifstofur Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Barna- og fjölskyldustofu. Ekki er gert ráð fyrir að Stuðlar í heild sinni flytji í Farsældartún, eins og hefur komið fram í opinberri umræðu.
Á efstu mynd, frá vinstri: Magnea Guðmundsdóttir, Silja Traustadóttir, Funi Sigurðsson, Ólöf Á Farestveit, Sóley Ragnarsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir og Valdimar Birgisson (fundarstjóri).
Á neðstu mynd: Fundargestir.