Í gær, þriðjudaginn 26. nóvember, opnaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, meðferðarheimilið Blönduhlíð, sem staðsett er á Farsældartúni í Mosfellsbæ. Meðferðarheimilið er fyrir ungmenni á aldrinum 13–18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður rekið af Barna- og fjölskyldustofu.
Meðferðarheimilinu er ætlað að vera viðbót við greiningar- og meðferðardeild Stuðla. Með því að bæta við öðru meðferðarheimili er unnt að aðgreina betur börn með mismunandi vanda og veita á þann hátt sérhæfðari þjónustu. Áætlað er að börn með þyngri vanda fái áfram greiningu og meðferð á meðferðardeild Stuðla. Meðferðarheimilið Blönduhlíð á Farsældartúni verður opnara úrræði en þegar er á Stuðlum.
Vinna við stofnun meðferðarheimilisins hófst seint á síðasta ári þegar þörf var á frekari aðgreiningu milli ungmenna eftir að Stuðlar fóru að taka við börnum í afplánun og gæsluvarðhald. Leigusamningur um húsnæðið var undirritaður í sumar og síðsumars var hafist handa við framkvæmdir á húsnæðinu til þess að það hentaði til þeirrar notkunar sem ætluð var. Eftir að bruninn varð á Stuðlum í október, fækkaði meðferðarplássum á Stuðlum um tvö rými sem voru færð yfir á neyðarvistun Stuðla til bráðabirgða. Allt kapp var þá sett í framkvæmdir á nýja meðferðarheimilinu til að mæta þeim þörfum sem eru knýjandi fyrir börn í viðkvæmri stöðu.
Blönduhlíð er staðsett á Farsældartúni, áður Skálatúni, þar sem unnið er að hönnun nýs þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni. Með Farsældartúni er markmiðið að byggja upp miðstöð samstarfs lykilstofnana og félagasamtaka sem starfa í þágu farsældar barna.