Á svæði Skálatúns mun rísa ný byggð sem mun hýsa aðila sem veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu og mun reksturinn, eins og hann hefur verið undanfarin ár, því taka breytingum eins og áður hefur komið fram. Þeir íbúar sem þegar eru búsettir á svæðinu halda áfram að búa þar og njóta þjónustu frá Mosfellsbæ en uppbygging svæðisins mun taka nokkurn tíma.
Í þeim tilgangi að marka nýtt upphaf á svæðinu réðist sjálfseignarstofnunin í nafnasamkeppni. Rúmlega 150 tillögur bárust. Niðurstaða dómnefndar var að heitið „Farsældartún“ yrði hlutskarpast. Vinningshafarnir heita Gerður Pálsdóttir, Guðrún Birna Einarsdóttir og Sigurveig Gunnarsdóttir og hver um sig hlaut 100.000 króna peningaverðlaun og viðurkenningarskjal.
Orðið farsæld merkir samkvæmt orðabók „það að farnast vel í lífinu“. Samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, farsældarlögunum, merkir farsæld barns þær „aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar. Dómnefndin taldi að vísan í tún væri m.a. vísan í gamla tíma þar sem fyrra heiti svæðisins var Skálatún. Einnig að þannig væri vísað í hefðir Mosfellsbæjar eins og bæjarhátíðina „Í túninu heima“. Þá eru tún tákn um grósku og uppskeru, sem vísar til þess starfs sem fara mun fram á svæðinu þegar það hefur verið byggt.
Dómnefndin var skipuð þremur fulltrúum, Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, f.h. mennta- og barnamálaráðuneytisins, Önnu Sigríði Guðnadóttur bæjarfulltrúa, f.h. Mosfellsbæjar og Ragnari Jónssyni, f.h. auglýsingastofunnar TVIST.
Sjálfseignastofnunin hefur hafið samstarf við hönnunarmiðstöð Ísland og farið verður í valferli til að leita að teymi arkitekta og fleiri fagaðila til að móta hugmyndir og tillögur að deiliskipulagi svæðisins. Markmiðið er að val á teymi liggi fyrir í vor og þá verði hafinn undirbúningur að deiliskipulagi svæðisins.
Nýlega samþykkti stjórnin að gera samning við Karla í skúrum um eftirlit með þeim húseignum á svæðinu sem ekki eru í notkun og á einni af myndunum má sjá Sóleyju Ragnarsdóttur framkvæmdastjóra Farsældartúns og Jón B Guðmundsson fyrir hönd Karla í skúrum skrifa undir samning þess efnis.
Mynd 1: Vinningshafar og dómnefnd.
Mynd 2: Sóley Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri Farsældartúns og Jón B Guðmundsson fyrir hönd Karla í skúrum skrifa undir samninginn.
Tengt efni
Mosfellsbær fjárfestir aukalega 100 milljónum í forvarnir
Styrkir til verkefna á sviði velferðarmála fyrir árið 2025
Lumar þú á leiguíbúð?
Mosfellsbær auglýsir eftir íbúðum fyrir flóttafólk til leigu.