Í kjölfar opins fundar með foreldrum og forsjáraðilum eldri bekkja grunnskóla í Mosfellsbæ sem haldinn var í september í framhaldi af bæjarhátíð og í ljósi umræðu í samfélaginu, kom ósk frá skólasamfélaginu um að einnig yrði haldinn fundur með foreldrum og forsjáraðilum barna á miðstigi grunnskóla. Sá fundur var haldinn í vikunni og voru tæplega 40 manns sem sóttu fundinn.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri stýrði fundinum, Elísabet Ósk Maríusdóttir samfélagslögga sagði frá hlutverki samfélagslöggunnar og þeirri fræðslu sem þau sinna í skólunum og Margrét Lilja Guðmundsdóttir þekkingarstjóri Planet Youth var með erindið „Best saman“ þar sem hún fjallaði um breytingar og áskoranir síðustu ára og hvað rannsóknir sýna okkur að beri árangur í að auka velferð barna og unglinga.
Í lokin voru uppbyggilegar og góðar umræður undir stjórn Ólafíu Daggar Ásgeirsdóttur og gátu fundargestir með gagnvirkum hætti komið sínum skoðunum á framfæri. Foreldrar komu með 75 hugmyndir og hugleiðingar undir spurningunni „Hvað getum við sem foreldrar gert til að styðja við vellíðan og öryggi barnanna í samfélaginu okkar“ og 51 hugmynd kom til Mosfellsbæjar um „Hvernig Mosfellsbær getur stutt við foreldra“. Mosfellsbær mun nýta þessa góðu punkta til að vinna að aðgerðaáætlun og forgangsraða verkefnum inn í fjárhagsáætlun ársins 2025.
Eins og kom meðal annars fram í erindi Margrétar Lilju þá þarf að verða jafn „töff“ að birta sjálfu þegar maður tekur að sér starf bekkjarfulltrúa eða fer í foreldrarölt eins og að hlaupa á fjöll, synda í sjó eða taka golfhring. Þátttakendur ákváðu því að taka sjálfuna sem fylgir fréttinni í lok fundar.
Tengt efni
Tendrun jólatrés á Miðbæjartorgi vel sótt
Um árabil hefur tendrun ljósa á jólatrénu á Miðbæjartorgi markað upphaf jólahalds í Mosfellsbæ.
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð
Húsfyllir á opnun jólalistaverkamarkaðar í Listasal Mosfellsbæjar