Skólahreysti fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir en fyrsta keppnin var haldin að Varmá í Mosfellsbæ og var Varmárskóli einn af sex skólunum sem tóku þá þátt.
Það má því segja að Skólahreysti hafi komið heim í Mosfellsbæinn í vikunni þegar sex riðlar fóru fram þriðjudag og miðvikudag, en úrslitakeppnin sem verður 24. maí verður einnig að Varmá.
Allir þrír skólar Mosfellsbæjar sem eru með unglingastig, Helgafellsskóli, Kvíslarskóli og Lágafellsskóli tóku þátt og var þetta fyrsta skiptið sem Helgafellsskóli tekur þátt. Lágafellsskóli er kominn áfram í úrslitin og setti Dagbjört Lilja Oddsdóttir nemandi Lágafellsskóla Íslandsmet í hreystigreip þegar hún hékk í 23 mínútur. Metið var hinsvegar slegið aftur sama kvöld.
Skólahreysti er sannkallað fjölskylduverkefni Mosfellinganna Andrésar Guðmundssonar og Láru Helgadóttur sem vinna þetta ásamt sonum sínum þremur sem allir taka virkan þátt í verkefninu með þeim.