Stýrihópur um endurskoðun þarfagreiningar fyrir þjónustu- og aðkomubyggingu að Varmá hefur skilað af sér skýrslu sem var lögð fyrir bæjarráð 18. apríl 2024.
Þarfagreiningin er hluti af umfangsmiklu verkefni stýrihóps á vegum Mosfellsbæjar og Aftureldingar um endurskoðun fyrir Varmársvæðið og mótun skýrrar framtíðarsýnar til næstu 15 ára.
Byggt var á fyrri þarfagreiningarvinnu vegna þjónustu- og aðkombyggingar sem unnin var á árunum 2020 til 2021. Vinnuhópurinn vann þarfagreininguna á tímabilinu 19. janúar – 16. apríl 2024. Haldnir voru 15 kynningarfundir með hagaðilum, tekin 26 viðtöl við skilgreinda hagaðila þar sem leitast var eftir viðhorfum viðmælendanna sjálfra og þeirra hópa sem þeir voru í forsvari fyrir og að lokum var spurningakönnun framkvæmd þar sem sérstök áhersla var lögð á að ná til barna og ungmenna. Alls tóku 1246 einstaklingar þátt á öllum aldri en könnunin var aðgengileg á vef Mosfellsbæjar og heilsíðuauglýsing birt í bæjarblaði Mosfellinga þar sem öll voru hvött til að taka þátt í henni. Að auki var könnunin aðgengileg á auðlesnu máli.
Markmið könnunarinnar var að ná fram sjónarmiðum fjölbreyttra hópa eftir því hvert hlutverk þeirra er í íþróttamiðstöðinni að Varmá þ.e. iðkendur, forráðamenn, starfsfólk Mosfellsbæjar, áhorfendur, sundlaugargestir, sjálfboðaliðar, starfsfólk eða þjálfarar íþróttafélaga. 97% þeirra sem tóku þátt í könnuninni nýta nú þegar íþróttamiðstöðina að Varmá eða geta hugsað sér að nýta hana.
Þarfagreiningin sýnir að fjölgun búningsaðstöðu að Varmá er aðkallandi einnig barnvæn aðstaða og aðstaða fyrir gesti. Þá kom fram að vinnu- og fundaraðstaða fyrir þjálfara, starfsfólk, íþróttakennara og aðra starfsemi er ábótavant. Auk þess sem að styrktaraðstaða er metin mjög mikilvæg og aðgengi fyrir fólk með fötlun.
Eftirtaldir þættir skiptu þátttakendur könnunarinnar mestu máli.
“Við erum ótrúlega þakklát þeim fjölmörgu hagaðilum sem ræddu við okkur og öllum þeim íbúum sem þátt tóku í könnunni. Það styrkir þessa vinnu hversu breiður og fjölbreyttur hópur tók þátt og einkar ánægjulegt var að sjá að þar af voru tæplega 200 börn 5-15 ára, en eins og við vitum eru börn stórnotendur íþróttamiðstöðva og því gríðarlega mikilvægt að fá þeirra rödd inn í þessa vinnu. Enda sýnir vinnan mikilvægi þess að í nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu sé sérstaklega hugað að barnvænni hönnun og rými fyrir börn” sagði Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Stýrihópurinn fór að auki í þrjár vettvangsheimsóknir í ný og nýleg íþróttamannvirki á höfuðborgarsvæðinu hjá ÍR, Val og Fram þar sem markmiðið var að draga lærdóm annarra sveitarfélaga og íþróttafélaga af gerð slíkra mannvirkja.
Þessi skýrsla er mikilvægur hlekkur í vinnu stýrihópsins um endurskoðun á framtíðarsýn fyrir íþróttasvæðið að Varmá. Næstu skref eru að rýna þarfagreininguna betur og meta hvernig núverandi teikningar koma til móts við þarfirnar.
Í stýrihópnum eiga sæti bæjarfulltrúarnir Halla Karen Kristinsdóttir sem er formaður, Valdimar Birgisson og Ásgeir Sveinsson, Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Arnar Jónsson sviðsstjóri menningar-, íþrótta og lýðheilsumála, Jóhanna B. Hansen, sviðsstjóri umhverfissviðs og Guðjón Svansson, leiðtogi íþrótta- og lýðheilsumála.
Tengt efni
Fundur bæjarstjórnar hefst kl. 14 miðvikudaginn 4. desember 2024
Bæjarráð heimsótti stofnanir
Bæjarfulltrúar í bæjarráði fóru í árlega heimsókn á stofnanir bæjarins í síðustu viku í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025.
Samráð við ungmennaráð í framhaldi af foreldrafundi í Hlégarði