Kjör í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram á Landsþingi sambandsins í dag, fimmtudaginn 20. mars 2025. Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ hlaut þar meðal annarra kjör til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Í stjórn eiga sæti ellefu aðilar sem öll hafa fengið kosningu í sveitarstjórn síns sveitarfélags. Við kjör í stjórn er landinu skipt upp í fimm kjörsvæði sem taka mið af skiptingu landsins í kjördæmi vegna Alþingiskosninga með þeirri undantekningu að Reykjavík er eitt kjörsvæði.
Anna Sigríður tekur sæti aðalmanns Suðvesturkjördæmis en Guðmundur Ari Sigurjónsson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Seltjarnarnesbæ sagði sig úr stjórn þegar hann tók sæti á Alþingi.
Anna Sigríður sem er upplýsinga- og stjórnsýslufræðingur hefur verið oddviti Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ síðan 2014 og tekið þátt í starfi þeirra síðan 2003. Anna Sigríður hefur setið sem bæjarfulltrúi Samfylkingar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá árinu 2014. Frá árinu 2022 hefur Anna Sigríður setið í meirihluta í bæjarstjórn, sem mynduð er af Framsóknarflokki, Samfylkingu og Viðreisn. Anna Sigríður á sæti í bæjarráði og menningar- og lýðræðisnefnd, hún er varamaður í velferðarnefnd og skipulagsnefnd auk þess gegndi hún embætti forseta bæjarstjórnar frá júní 2022 til júní 2023.