Á fundi bæjarráðs þann 20. febrúar 2025 var tekið fyrir mál um frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Eftirfarandi er bókun bæjarráðs vegna þessa máls:
Bæjarráð Mosfellsbæjar gagnrýnir harðlega málsmeðferð við framlagningu frumvarps um jöfnunarsjóð sveitarfélaga en sveitarfélögum eru gefnar tvær vikur til að veita umsögn við frumvarpið. Um er að ræða miklar breytingar á úthlutunarlíkaninu sem til að mynda hefur þau áhrif að framlag til Mosfellsbæjar lækkar um 400 milljónir. Það er því lágmark að sveitarfélögum sé sýnd virðing og svigrúm til að greina líkanið og veita faglega umsögn um þetta mikilvæga mál. Mosfellsbær fullnýtir útsvarsheimild sína og áhrif nýja úthlutunarlíkansins á fjárhag bæjarins eru mjög mikil.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna umsögn um málið.
Forsaga þessa frumvarps er sú að í janúar 2023 skipaði innviðaráðherra starfshóp um endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og var frumvarp þess efnis birt í samráðsgátt stjórnvalda í mars 2023. Frumvarpið var síðan lagt fyrir 154. löggjafarþing Alþingis 2023-2024 en náði ekki fram að ganga.
Ráðherra fól ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í janúar sl. að ganga frá endanlegum tillögum um breytingar á starfsemi og regluverki sjóðsins. Drög að nýju frumvarpi hefur verið lagt fram til kynningar á Samráðsgátt stjórnvalda með þó nokkrum breytingum og hafa sveitarfélög tvær vikur til að veita umsögn við frumvarpinu.
Ljóst er að þær miklu breytingar á úthlutunarlíkaninu sem frumvarpið felur í sér munu hafa umtalsverð áhrif á rekstur sveitarfélagsins þar sem framlag til Mosfellsbæjar lækkar um 400 milljónir að loknum aðlögunartíma.
Tengt efni
Bæjarstjórnarfundur verður fjarfundur vegna veðurs 5. febrúar 2024
Fundur bæjarstjórnar hefst kl. 14 miðvikudaginn 4. desember 2024
Bæjarráð heimsótti stofnanir
Bæjarfulltrúar í bæjarráði fóru í árlega heimsókn á stofnanir bæjarins í síðustu viku í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025.