Mosfellsbær boðaði til samtals og blaðamannafundar á bókasafni Mosfellsbæjar í dag til að kynna aðgerðir í þágu barna og unglinga í Mosfellsbæ. Átakið hefur fengið nafnið „Börnin okkar“ og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir.
Átakinu er ætlað að mæta mikilli fjölgun barnaverndarmála en barnaverndartilkynningum hefur fjölgjað um 50% á fyrstu 10 mánuðum ársins og var aðgerðaráætlun átaksins lögð fram með fjárhagsáætlun í síðastliðinni viku. Aðgerðirnar 27 byggja á vinnustofum, fundum og samtölum við unglinga, foreldra og forráðamenn og sérfræðinga sem vinna í þjónustu við börn og ungmenni. Þær munu ná til almennra forvarna, snemmtækrar íhlutunar og styrkingar barnaverndarstarfs og felast meðal annars í því að:
- Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
- Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
- Hækka frístundastyrki.
- Styrkja starf félagsmiðstöðva.
- Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
- Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
- Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
- Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.
Með átakinu vill Mosfellsbær stuðla að því að þessi mál komist á dagskrá kosningabaráttunnar tengt komandi þingkosningum og á dagskrá sveitarfélaganna. Ef öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu legðu hlutfallslega jafn mikið til svona átaks þá næmi upphæðin tæplega 2 milljörðum.
„Við teljum að það sé engin ein lausn en við vildum byrja strax og með þeim aðgerðum sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða. Við ætlum að hækka frístundastyrki, vera með reglubundin námskeið fyrir foreldra sem byrja að hausti, ætlum að vinna að gerð samskiptasáttmála í öllum skólunum á milli heimila og skóla, við verðum með lýðheilsuverkefni og opin íþróttahús á kvöldin og um helgar og styrkjum félagsmiðstöðina. Þetta er bara nokkrar af 27 aðgerðum alls. Nú vonum við að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið enda snerta málefni barna okkur öll. Þá þyrfti ríkisvaldið að tryggja betri meðferðarúrræði fyrir börn en nú eru í boði,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Þátttakendur á fundinum voru m.a. bæjarstjóri, kjörnir fulltrúar í Mosfellsbæ, fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna í Suðvesturkjördæmi, fulltrúar úr ungmennaráði, skólastjórar auk annarra lykilaðila í málefnum barna og unglinga í Mosfellsbæ. Allir þessir aðilar tóku undir nauðsyn þess að gera meira til að mæta þörfum barna og ungmenna.
Ljósmyndari: Hulda Margrét Óladóttir