Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 endurspeglar hátt fjárfestingarstig og forgangsröðun í þágu barna og unglinga. Fyrri umræða bæjarstjórnar um áætlunina fór fram í dag, miðvikudaginn 6. nóvember.
- Heildartekjur eru áætlaðar 22.995 m.kr. og þar af eru áætlaðar útsvarstekjur 12.179 m.kr.
- Tekjur af byggingarrétti eru áætlaðar 514 m.kr.
- Áætlað er að framkvæma í A-hluta fyrir 4.039 m.kr. og fyrir 1.340 m.kr. í B-hluta. Tekjur af gatnagerð eru 1.295 m.kr. og samtals er því kostnaður vegna framkvæmda A- og B-hluta 4.084 m.kr.
- Afgangur verður af rekstri A- og B-hluta, 716 m.kr., þrátt fyrir hátt fjárfestingarstig.
- Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 1.982 m.kr., þ.e. um 9% af heildartekjum.
- Álagningarhlutfall fasteignaskatts A hækkar úr 0,19% í 0,20%. Aðrar álagningarprósentur fasteignaskatts verða óbreyttar.
- Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt, þ.e. 14,97%, í samræmi við lögbundna heimild sveitarfélaga.
- Hækkun á gjaldskrám sem varða börn verða 3,5% en aðrar gjaldskrár hækka almennt um 3,9%.
- Áætluð íbúafjölgun er 2% og gert er þá ráð fyrir að íbúar verði 13.789 í byrjun árs 2025.
Hátt fjárfestingarstig og áhersla á börn og unglinga
Fjárfestingar ársins 2025 endurspegla þá miklu uppbyggingu sem er í bæjarfélaginu, auk þess sem áhersla er á viðhald eigna, sérstaklega í skólum og íþróttamannvirkjum.
Fjárfestingar í stofnunum bæjarins eru áætlaðar um 3 milljarðar króna. Fjárfestingar í gatnagerð og veitnakerfi eru áætlaðar um 2 milljarðar króna.
Nýr leikskóli verður tekinn í notkun í Helgafellshverfi á árinu og er hann ein stærsta einstaka fjárfestingin árið 2025, eða um 830 m.kr.
Uppbygging Varmársvæðis vegna endurnýjunar á aðalvelli, framkvæmdir við nýja frjálsíþróttabraut og hönnun á nýrri þjónustu og aðkomubyggingu og stúku nemur um 800 milljónum króna.
Þá verður nýtt íþróttahús tekið í notkun við Helgafellsskóla og nýtt húsnæði verður keypt fyrir skammtímavistun fyrir fötluð börn.
Þá er lögð mikil áhersla á viðhald eigna í íþróttamannvirkjum og skólabyggingum, auk endurnýjunar á skólalóðum.
Stærstu verkefnin í veitum og gatnagerð tengjast nýju atvinnusvæði, Korputúni, en auk þess er mikil áhersla lögð á endurnýjun lagna og gatnakerfis í eldri hverfum.
Lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu eru í Mosfellsbæ og er gert ráð fyrir að gjaldskrár sem varða þjónustu við börn hækki einungis um 3,5%, þ.e. í samræmi við markmið kjarasamninganna 2024.
Þá var jafnframt lögð fram í bæjarstjórn aðgerðaráætlun í málefnum barna og ungmenna í samræmi við bókun bæjarstjórnar fyrr í haust vegna fjölgunar barnaverndartilkynninga.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri:
„Við erum sveitarfélag í örum vexti sem krefst mikillar innviðauppbyggingar og er fjárfestingastig með því hæsta í sögu sveitarfélagsins. Þar erum við fyrst og fremst að fjárfesta í skólum og íþróttamannvirkjum enda börn og ungmenni mikið áherslumál hjá okkur. Þrátt fyrir afar krefjandi efnahagsumhverfi þá stefnum við að því að skila 716 milljóna króna rekstrarafgangi.“
Mynd: Alexía Guðjónsdóttir
Tengt efni
Áætlaður rekstrarafgangur 702 milljónir á árinu 2025
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 endurspeglar hátt fjárfestingarstig og forgangsröðun í þágu barna og unglinga.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.
Rekstrarafgangur Mosfellsbæjar áætlaður tæpur milljarður árið 2024
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 6. desember, er lögð áhersla á ábyrgan rekstur samhliða mikilli uppbyggingu innviða, háu þjónustustigi og lágum gjöldum til barnafjölskyldna.