Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum þann 8. júní 2023 að heimila leigu afnotareita í Leirvogstunguhverfi í samræmi við samþykkt skipulag.
Skipulagi svæðisins var breytt árið 2022 með það að markmiði að aðliggjandi hús og lóðir við bæjarland geti fengið afnotasvæði sem viðbót við garð eða lóð. Afnotareitir eru háð sérstökum skilmálum og takmörkunum í samræmi við greinargerð skipulagsins. Fyrirkomulagið gefur íbúum kost á að nýta vannýtt svæði betur. Afnotahafar geta mótað land og aðlagað það lóð sinni. Svæði má girða af með einföldum hætti og gróðursetja. Afnotareitir gefa ekki auknar byggingarheimildir húsa og þar má ekki reisa eða framkvæma varanleg mannvirki, svo sem háa skjólveggi eða garðhýsi. Not afnotareita má ekki hafa skerðandi eða truflandi áhrif fyrir aðra í hverfinu.
Á samþykktum skipulagsuppdrætti má sjá hvar afnotareiti er að finna og getur aðliggjandi lóðarhafi sótt um svæði næst sinni lóð. Eingreiðsla er fyrir reitinn og gerður verður samningur við hvern og einn lóðarhafa. Mikilvægt er að gera samning við sveitarfélagið til þess að tryggja óumdeildan rétt til afnota. Reitir eru í samræmi við skipulag og greitt eftir þeirri stærð sem þar er að finna. Fyrir 50 m2 og stærri reiti skal greiða 100.000 kr. en 80.000 kr. fyrir minni reitina, í samræmi við samþykkt bæjarráðs. Í því verði er innifalinn umsýslu-, skjalagerðar- og skipulagsgjald í samræmi við samþykkta gjaldskrá Mosfellsbæjar.
Áhugasamir geta sent umsókn um afnotareit á tölvupóstinn skipulag[hja]mos.is, haft verður samband við alla aðila og í framhaldi boðað til undirritunar samnings um reiti.