Mosfellsbær hefur skrifað undir samstarfssamning við Samtökin ’78 um hinsegin fræðslu, ráðgjöf og stuðning við nemendur, aðstandendur þeirra og starfsfólk sveitafélagsins sem starfar með börnum og ungmennum í skóla-, tómstunda- og íþróttastarfi.
Með þessum samningi fá viðkomandi aðilar ráðgjöf Samtakanna án endurgjalds. Fræðslan er í formi erinda fyrir allt starfsfólk og námskeiða fyrir nemendur og mun hefjast strax á haustönn 2023.
Hagsmunasamtök hinsegin fólks hafa bent á að margskonar áreitni, hatursorðræða og ofbeldi hefur aukist mjög í garð hinsegin fólks. Einnig hafa fréttir af slíku ofbeldi verið í fjölmiðlum og til umræðu á samfélagsmiðlum. Mikilvægt er að bregðast við með aukinni umræðu og fræðslu og vill Mosfellsbær stíga þar nauðsynleg skref öllum til heilla og í takti við menntastefnu sveitafélagsins. Leiðarljós og grunnstef menntastefnu Mosfellsbæjar „Heimurinn er okkar“ er að allir fái notið sín og að unnið skuli að velferð barna og ungmenna með jákvæðum samskiptum og valdeflingu.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri Samtaka ’78 skrifuðu undir samninginn í dag 7. júní að viðstöddum þeim Gunnhildi Sæmundsdóttur sviðsstjóra fræðslusviðs og Eddu Davíðsdóttur, Jóhönnu Magnúsdóttur og Ragnheiði Axelsdóttur fulltrúum fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar. Samningurinn er til þriggja ára og greiðir Mosfellsbær rúmlega 5 milljónir í heildina fyrir verkefnið.
Tengt efni
Nýtt skipurit hjá Mosfellsbæ tekur gildi í dag
Í dag, 1. september 2023, tekur nýtt skipurit gildi hjá Mosfellsbæ.
Starfsaldursviðurkenningar veittar á hátíðardagskrá
Á hátíðardagskrá sem var haldin í Hlégarði í gær, í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima fengu fimm starfsmenn Mosfellsbæjar starfsaldursviðurkenningu.
Nýir stjórnendur til Mosfellsbæjar
Á fundi bæjarráðs í dag þann 20. júlí var samþykkt ráðning skrifstofustjóra umbóta og þróunar og sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfis. Þá var samþykkt ráðning leikskólastjóra á leikskólanum Hlíð. Að auki voru kynntar ráðningar fimm nýrra stjórnenda á velferðarsviði, umhverfissviði og fræðslu- og frístundasviði.