Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur í Hlégarði í dag. Málefni dagsins var jafnrétti á vinnumarkaði út frá ólíkum aldurshópum.
Á dagskránni voru fjölbreytt erindi frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum sem hafa aðkomu að og reynslu af vinnumarkaðnum úr ólíkum áttum.
Nýr bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Regína Ásvaldsdóttir opnaði jafnréttisdaginn með því að ávarpa gesti og bjóða þá velkomna.
Fundarstýra var Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir en hún er formaður stéttarfélagsins Fræðagarðs í BHM og sérlegur ráðgjafi Kvenréttindafélags Íslands.
Fyrirlesarar á jafnréttisdegi Mosfellsbæjar 2022 voru:
- Herdís Haraldsdóttir, MPA og diplóma í hagnýtum jafnréttisfræðum, fjallaði um birtingarmyndir jafnréttis á vinnumarkaði og rýndi í ólík aldursbil/kynslóðabil.
- Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur hjá VMST, kynnti námskeið fyrir aldurshópinn 45+ og hvað tölfræðin segir um jafnrétti á vinnumarkaði tengt ólíkum aldurshópum.
- Geirlaug Jóhannsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi, fór yfir ráðningarferlið og upplifun af einstaklingum sem eru mögulega lengur í vinnuleit.
- Þór Saari og Árdís Sigurðardóttir deildu sinni upplifun af atvinnuleit.
- Jón Arnar Guðbrandsson, eigandi Grazie Trattoria, sagði frá ákvörðun sinni að ráða eingöngu 60+ ára starfsfólk á veitingastaðinn sinn.
- Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara (FEB), fjallaði um upplifun gráa hersins af jafnrétti á vinnumarkaði fyrir eldra fólk.
- Sigrún Ósk Jakobsdóttir, mannauðsstjóri Advania, fór yfir jafnréttismenningu fyrirtækisins og þær aðgerðir sem hafa verið teknar til að auka jafnrétti innanhúss.
Erindi fyrirlesaranna voru fjölbreytt og áhugaverð og þarft innlegg í umræðuna enda fer lífaldur hækkandi í hinum vestræna heimi. Flestir fyrirlesaranna voru á því að ekki ríkti jafnrétti á vinnumarkaði þegar horft var til eldri aldurshópa.
Brynhildur fundarstýra dró saman erindin í lok dagskránnar og benti réttilega á að „við náum aldrei jafnrétti fyrr en við verðum öll jöfn“.
Upptaka af viðburðinum verður aðgengileg á vef Mosfellsbæjar í næstu viku.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd fær þakkir fyrir framlag sitt í þágu jafnréttismála við framkvæmd jafnréttisdags Mosfellsbæjar árið 2022.
Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar er haldinn árlega til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur en hún var fyrst kvenna oddviti í sveitarfélaginu og lét sig varða málefni kvenna með ýmsum hætti í sínum störfum.
Tengt efni
Upptaka frá jafnréttisdegi Mosfellsbæjar 2022
Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur í Hlégarði 22. september 2022.
Haldið upp á Jafnréttisdag Mosfellsbæjar í Hlégarði 22. september 2022
Dagskrá í Hlégarði á milli kl. 15:00 – 17:00.
Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar 22. september 2022
Haldið upp á daginn í Hlégarði kl. 15:00 – 17:00.