Leiðarljós menntastefnu Mosfellsbæjar er að skóla- og frístundastarfið sé í fremstu röð og þar fái allir notið sín. Unnið er að velferð og vexti allra hagaðila með jákvæðum samskiptum, valdeflingu, sveigjanleika og upplýsingum um starfið.
Hagaðilar
Í samfélagi skóla- og frístundastarfs eru hagaðilar: börn, foreldrar, starfsfólk, kjörnir fulltrúar og íbúar Mosfellsbæjar. Þeir hafa allir hlutverk við innleiðingu menntastefnunnar.
- Börn fái að sýna frumkvæði og taka ábyrgð á eigin námi eftir því sem þau hafa þroska, aldur og getu til. Þau læri lýðræðisleg vinnubrögð og geti komið hugmyndum sínum óhikað á framfæri.
- Foreldrar hafi vakandi auga með velferð barna sinna og eigi gott samstarf við starfsfólk skóla og frístundar. Mikilvægt er að foreldrar fái stuðning við að efla foreldrafærni og séu lausnamiðaðir þegar tekist er á við áskoranir. Foreldrum gefist jafnframt kostur á að taka þátt í að þróa og bæta skóla- og frístundastarf.
- Starfsfólk taki þátt í lærdómssamfélagi og leggi sig fram við að vaxa í starfi með fjölbreyttum náms-, leik- og kennsluaðferðum. Með jákvæð samskipti að leiðarljósi og með góðu samstarfi við börn, foreldra og aðra hagaðila verði markvisst byggt upp framsækið skóla- og frístundastarf.
- Kjörnir fulltrúar marki sér skýra stefnu og tryggi að menntastefnunni sé fylgt. Þeir stuðli að uppbyggilegum skoðanaskiptum, upplýsingamiðlun og samstöðu hagaðila í skóla- og frístundastarfi.
- Íbúar geti tekið þátt í viðburðum og verkefnum og sýnt þannig stuðning sinn við skóla- og frístundastarf í verki. Þeim bjóðist að byggja upp jákvæð og lausnamiðuð samskipti sem einkennist af virðingu fyrir starfinu og þeim sem að því koma.
Stoðir
Stoðir menntastefnu Mosfellsbæjar eru þrjár; vöxtur, fjölbreytni og samvinna. Þær skarast og eru nátengdar hver annarri. Til að allir blómstri í skóla- og frístundastarfi þarf fjölbreytni og góða samvinnu hagaðila.
1. Vöxtur
Forsenda þess að börn geti lært og dafnað er að þeim sé búið öruggt umhverfi þar sem færni þeirra er aukin á sem fjölbreyttastan hátt og sjálfsmynd þeirra styrkt. Í skóla- og frístundastarfi er því lögð áhersla á menntun, öryggi, vellíðan, snemmtækan stuðning og heilsueflingu.
Öryggi og vellíðan eru undirstaða þess að börn blómstri í námi og leik. Því skal tryggja að börn fái tækifæri til þess að efla styrkleika sína og takast á við áskoranir í öruggu og hvetjandi umhverfi. Allt skóla og frístundastarf er í samfelldri þróun þar sem þekking og reynsla vaxa stöðugt.
Markmið
-
Tryggja skal öryggi, vellíðan og vöxt allra í skóla- og frístundastarfi.
-
Leggja skal áherslu á þjálfun, stuðning og handleiðslu barna, foreldra og starfsfólks til að tryggja farsæld.
Í gæða skóla- og frístundastarfi líður öllum vel og skapað er öruggt umhverfi til vaxtar, sköpunar og þróunar.
2. Fjölbreytni
Fjölbreytt, skapandi og sveigjanlegt skóla- og frístundastarf mæti ólíkum þörfum og styrkleikum barna og stuðli að farsæld þeirra. Markmiðið er að auka sveigjanleika starfsins og efla þar með trú barna á eigin getu. Þannig verða þau betur í stakk búin til að mæta mismunandi verkefnum í námi, leik og starfi.
Fjölbreyttar þarfir barna kalla á sveigjanlegt umhverfi, kennsluhætti og námsmat. Mikilvægt er að börn búi yfir víðsýni, umburðarlyndi og sveigjanleika til að mæta fjölbreytni mannlífsins og öllum þeim ólíku verkefnum sem bíða þeirra í lífinu.
Markmið
-
Þekking og skilningur á þörfum, áhugasviðum, styrkleikum og áskorunum barna.
-
Nám þar sem lögð er áhersla á sköpun, hæfni, virkni og frumkvæði barna.
Leggja skal áherslu á að börn byggi upp sterka sjálfsmynd, seiglu og trú á eigin getu með fjölbreyttum verkefnum, hvatningu og endurgjöf.
3. Samvinna
Skýr sameiginleg sýn hagaðila, heilindi og uppbyggileg og lausnamiðuð umræða tryggir góða samvinnu. Þannig verður skóla- og frístundastarf árangursríkt þar sem börnin eru í brennidepli.
Með góðri samvinnu allra hagaðila næst fram sameiginleg sýn á markmið og samstaða um aðgerðir, börnum og samfélaginu öllu til heilla.
Markmið
- Uppbyggilegar, yfirvegaðar og lausnamiðaðar samræður um áskoranir og umbætur.
- Markvissar upplýsingar um árangur og þróun í skóla- og frístundastarfi.
Grunnforsenda blómlegs skóla- og frístundastarfs er öflugt samstarf hagaðila. Hlutverk og ábyrgð þeirra skal vera skýr og unnið með virkri þátttöku, samvinnu, virðingu og lausnamiðuðu samstarfi þar sem hagsmunir barna eru ávallt í fyrirrúmi.