Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag, þann 8. nóvember er lögð áhersla á ábyrgan rekstur og áframhaldandi uppbyggingu innviða, hátt þjónustustig og lág gjöld til barnafjölskyldna og áframhaldandi áherslu á stafræna þróun og umbætur.
- Heildartekjur eru áætlaðar 21.476 m.kr. og þar af eru áætlaðar útsvarstekjur 11.424 m.kr.
- Tekjur af byggingarétti áætlaðar 600 m.kr.
- Nýframkvæmdir ársins 2024 eru áætlaðar 4,9 milljarðar kr. brúttó.
- Afgangur verður af rekstri A- og B hluta, 945 m.kr. þrátt fyrir hátt fjárfestingarstig.
- Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 2.097 m.kr. eða um 10% af heildartekjum.
- Álagningarhlutfall fasteignaskatts A lækkar til að koma til móts við hækkun fasteignamats svo hækkun sé ekki umfram verðlag.
- Álagningarprósenta fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis lækkar.
- Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 14,74% í samræmi við lögbundna heimild sveitarfélaga.
- Hækkun á gjaldskrám verður til samræmis við breytingar á verðlagi.
- Gert er ráð fyrir að íbúar verði um 13.753 í byrjun árs 2024 og er ætluð íbúafjölgun 2,6%.
- Útkomuspá 2023 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi fyrsta skipti síðan 2019.
Þjónusta við börn og fjölskyldur
Í fjárhagsáætlun ársins 2024 er gert ráð fyrir því að Mosfellsbær verði áfram með lægstu gjöldin í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu en í dag greiða foreldrar 28.284 kr. fyrir átta tíma vistun með fæði. Bærinn mun enn fremur greiða niður dagvistun hjá dagforeldrum þannig að foreldrar greiði jafnhátt gjald hjá dagforeldrum og á leikskólum til að jafna aðstæður barna. Þá er gert ráð fyrir að börn fædd 1. ágúst 2023 eða fyrr komist inn í leikskóla haustið 2024. Áhersla verður á farsæld barna og að styrkja Mosfellsbæ enn frekar sem Barnvænt sveitarfélag. Þá verður settur aukinn kraftur í innleiðingu á nýrri menntastefnu og eflingu upplýsingatækni í skólum.
Umbætur í þjónustu og stafræn vegferð
Þjónusta við íbúa Mosfellsbæjar er sett í forgang með auknum fjárfestingum í stafrænni umbreytingu, gerð þjónustustefnu og fleiri umbótatillögum tengdum rekstri og stjórnsýslu.
Mosfellsbær hefur þátttöku í tilraunaverkefninu Gott að eldast sem felur í sér að samþætta þjónustu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Einnig verða fyrstu skrefin í innleiðingu á velferðartækni tekin þar sem tæknilausnir eru nýttar til að auka þjónustu við aldraða.
Fjárfesting og endurnýjun mannvirkja
Á kjörtímabilinu er unnið að heildstæðri uppbyggingu íþróttasvæða og á árinu 2024 verður meðal annars farið í að endurbyggja aðalvöll Varmárvalla.
Árið 2024 verður hafist handa við uppbyggingu 89.000 fermetra vistvæns BREEAM vottaðs verslunar-, þjónustu- og athafnasvæðis Korputúns við Korpúlfsstaðaveg sunnan Blikastaða.
Á landi Blikastaða er fyrirhuguð 9000 manna íbúðabyggð sem tengja mun sveitarfélagið betur við höfuðborgarsvæðið á grunni bættra almenningssamgangna með tilkomu Borgarlínu. Í landi Blikastaða verða ný leik- og grunnskólahverfi auk frekari möguleika til uppbyggingar verslunar-, þjónustu- og miðsvæðis við gamla bæinn að Blikastöðum. Undirbúningur skipulags fyrsta áfanga íbúðarhverfisins er hafinn og mun deiliskipulag verða unnið á árunum 2024-2025.
Til að koma til móts við fjölgun barnafólks í sveitarfélaginu verður byggður nýr og framsækinn 1.680m2 leikskóli í Helgafellshverfi. Hönnunin miðar að því að skapa jákvætt samfélag barna og starfsfólks sem eflir nám í gegnum leik og félagsleg samskipti. Áætluð verklok eru 1. maí 2025.
Tengt efni
Áætlaður rekstrarafgangur 702 milljónir á árinu 2025
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 endurspeglar hátt fjárfestingarstig og forgangsröðun í þágu barna og unglinga.
Hátt fjárfestingarstig í Mosfellsbæ og forgangsröðun í þágu barna og unglinga
Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.