Á Stekkjarflöt er stórt svæði með leiktækjum og ærslabelg sem er opinn frá kl. 10:00 – 22:00. Að auki er hægt að spila blak á strandblakvellinum sem er staðsettur nálægt íþróttamiðstöðinni að Varmá. Blakdeild Aftureldingar sér um bókanir og umsjón með vellinum. Þá er skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna úr Álafosskvos og um Reykjalundarskóg. Í Ævintýragarðinum eru margvísleg klifur- og þrautatæki sem og annar ærslabelgur. Þar er líka níu holu frisbígolfvöllur.
Í bænum eru tvær sundlaugar, Lágafellslaug og Varmárlaug, þar sem hægt er að njóta góða veðursins. Nálægðin við náttúruna gerir íbúum líka fært að njóta útivistar af ýmsu tagi auk þess sem hægt er að finna göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir við allra hæfi í nágrenni bæjarins.
Einnig er hægt að:
- fá lánaðar bækur, hljóðbækur, spil, kökumót og fleira á bókasafninu
- fara í fjöruferð
- fara í gönguferð að Tungufossi eða Helgufossi í Mosfellsdal
- fara í skógarferð um Hamrahlíðarskóg
- prófa allskonar leikvelli
- spila körfubolta á einhverjum af körfuboltavöllunum
- taka þátt í Sumarlestri bókasafnsins
Ekki má gleyma öllum þeim áhugaverðu viðburðum sem í boði eru í Mosfellsbæ.
Stofutónleikar Gljúfrasteins 2024
Stofutónleikar hefjast kl. 16 og aðgangseyrir er 3.500 kr. Miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika og næg bílastæði eru við Jónstótt.
Dagskráin í sumar er sem hér segir:
Júlí:
- 7. júlí Sólveig Thoroddsen hörpuleikari og Sergio Coto Blanko lútuleikari.
- 14. júlí Hjörtur Ingvi Jóhannsson leikur á píanó, Andri Ólafsson á bassa og Magnús Tryggvason Eliassen á trommur.
- 21. júlí Páll Palomares fiðla og Erna Vala Arnardóttir píanó.
- 28. júlí Magnús Jóhann píanóleikari og Óskar Guðjónsson saxafónleikari spila jazz.
Ágúst:
- 4. ágúst Dúóið Girni og Stál spila barokk. Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari.
- 11. ágúst Kristján Kristjánsson KK syngur og spilar eins og honum einum er lagið.
- 18. ágúst Strengjakvartettinn Spúttnik. Kvartettinn skipa: Vigdís Másdóttir, víóla, Gréta Rún Snorradóttir, selló, Diljá Sigursveinsdóttir, fiðla og Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir fiðla.
- 25. ágúst Benedikt Kristjánsson tenór og Mathias Halvorsen píanó leika sönglög eftir Robert Schumann.
Velkomin á stofutónleika á Gljúfrasteini í sumar.
29. júní – 26. júlí
Listasalur Mosfellsbæjar
Listasalur Mosfellsbæjar býður öll velkomin á sýninguna „Alltof mikil náttura“ eftir Þorgerði Jörundsdóttur.
Sýningin „Alltof mikil náttúra“ er beint framhald sýningarinnar „Of mikil náttúra“ þar sem áfram er leitast við að fjalla um líffræðilega fjölbreytni náttúrunnar á tímum hamfarahlýnunar. Við sem tilheyrum mannkyninu viljum gjarnan gleyma því að við erum hluti þessarar tegundaflóru sem byggir þessa jörð. Við erum lífverur og háð umhverfinu rétt eins og allar aðrar lífverur. Áhrif okkar á náttúruna og allt umhverfið eru nú orðin slík að talað er um mannöld.
Verkin á sýningunni eru bæði tvívíð myndverk og einnig þrívíð verk. Myndverkin eru annars vegar unnin með bleki en svo teiknað ofan í með tússi og hins vegar blýantsteikningar.
Þorgerður Jörundsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1969 og stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík og frönskunám í Université de Caen í Frakklandi. Hún lauk námi við skúlptúrdeild MHÍ 1999 og BA í heimspeki við Háskóla Íslands 1995.
Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 09:00-18:00 á virkum dögum í sumar.
8. júlí kl. 18:00
Leikhópurinn Lotta sýnir söngleikinn Bangsímon
Sýningin fer fram mánudaginn 8. júlí kl. 18:00 á túninu við Hlégarð.
Flestir kannast við vinalega bangsann hann Bangsimon, vini hans Gríslinginn, Kaniku, Eyrnaslapa og Ugluna svo þau þarf vart að kynna. Í höndum Lottu hefur þessum sögum verið gefið nýtt líf og lifna persónurnar nú loksins við frammi fyrir augunum á okkur. Eins og Lottu er von að vísa eru 10 glæný íslensk lög í sýningunni, mikið af dönsum og heill hellingur af bröndurum, bæði fyrir börn og fullorðna. Sýningin er klukkutími að lengd og skipta fimm leikarar á milli sín öllum hlutverkum.
Miðaverð 3.700 kr. frítt fyrir 2ja ára og yngri. Bæði er hægt að nálgast miða á staðnum sem og á tix.is.
Miðasala á tix.is:
Dalsgarður sumarblómasala
Á sumarblómasölu Dalsgarðs er hægt að kaupa litrík og falleg sumarblóm.
Dalsgarður gróðrastöð, Dalsgarði, 271 Mosfellsbæ.
Opið alla daga frá kl. 10:00 – 18:00.
28. ágúst – 1. september
Í túninu heima
Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, er haldin síðustu helgina í ágúst ár hvert.
Hátíðin er sett á fimmtudegi og eru fjölbreyttir viðburðir í boði svo sem tónleikar, útimarkaðir, íþróttaviðburðir og margt fleira. Á föstudagskvöldi safnast íbúar saman í götugrill áður en haldið er í skrúðgöngu og brekkusöng í Álafosskvos.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi og stíga ávallt landsþekktar hljómsveitir á ásamt heimafólki á svið.
31. ágúst
Tindahlaupið í boði Nettó
Tindahlaupið fer fram laugardaginn 31. ágúst 2024. Hlaupið er utanvega um fjöll, heiðar og dali í bæjarlandi Mosfellsbæjar.
Boðið er upp á fjórar vegalengdir:
- 1 tindur – 12,4 km með 420m hækkun. Rástími kl. 11:00
- 3 tindar – 19 km með 812m hækkun. Rástími kl. 11:00
- 5 tindar – 34,4 km með 1410m hækkun. Rástími kl. 09:00
- 7 tindar – 38,2 km með 1822m hækkun. Rástími kl. 09:00
Skráning er til miðnættis miðvikudaginn 28. ágúst 2024.
Nánari upplýsingar og skráning:
Tengt efni
Bréf til foreldra vegna vopnaburðar barna og ungmenna
Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum í Mosfellsbæ
Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum er hafið á félagssvæði Harðar í Mosfellsbæ.
Opnað fyrir nýtingu frístundaávísana allt árið