Fjórða árið í röð fengu nemendur í 5. bekk Varmárskóla fræðslu hjá starfsfólki bæjarskrifstofa um stjórnsýslu og þjónustu Mosfellsbæjar. Bekkirnir voru fimm þetta árið og fór fræðslan fram bæði á bæjarskrifstofum og á bókasafni.
Fræðslan er hluti af lokaverkefni í útikennslu þar sem þau læra um sveitarfélagið sitt og hvernig það hefur þróast. Áherslan í kynningunum var á starfsemi og þjónustu sem snýr að börnum. Má þar nefna verkefni eins og Börnin okkar sem er átak í þágu barna og unglinga í Mosfellsbæ og Krakka Mosó sem er lýðræðis- og samráðsverkefni um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til framkvæmda eða verkefna á þrem opnum svæðum í bænum.
Það voru skemmtilegar spurningar sem vöknuðu og góð umræða sem fór fram og ekki hægt að segja annað en að framtíðin í Mosfellsbæ sé björt með svona frambærilega krakka sem voru skólanum sínum sannarlega til sóma.