Á Stekkjarflöt er stórt svæði með leiktækjum og ærslabelg sem er opinn frá kl. 10:00 – 22:00. Að auki er hægt að spila blak á strandblakvellinum sem er staðsettur nálægt íþróttamiðstöðinni að Varmá. Blakdeild Aftureldingar sér um bókanir og umsjón með vellinum. Þá er skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna úr Álafosskvos og um Reykjalundarskóg. Í Ævintýragarðinum eru margvísleg klifur- og þrautatæki sem og annar ærslabelgur. Þar er líka níu holu frisbígolfvöllur.
Í bænum eru tvær sundlaugar, Lágafellslaug og Varmárlaug, þar sem hægt er að njóta góða veðursins. Nálægðin við náttúruna gerir íbúum líka fært að njóta útivistar af ýmsu tagi auk þess sem hægt er að finna göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir við allra hæfi í nágrenni bæjarins.
Einnig er hægt að:
- fá lánaðar bækur, hljóðbækur, spil, kökumót og fleira á bókasafninu
- fara í fjöruferð
- fara í gönguferð að Tungufossi eða Helgufossi í Mosfellsdal
- fara í skógarferð um Hamrahlíðarskóg
- prófa allskonar leikvelli
- spila körfubolta á einhverjum af körfuboltavöllunum
- taka þátt í Sumarlestri bókasafnsins
Ekki má gleyma öllum þeim áhugaverðu viðburðum sem í boði eru í Mosfellsbæ.
Stofutónleikar á Gljúfrasteini
Tónleikar í stofunni á Gljúfrasteini á hverjum sunnudegi í sumar. Tónleikarnir hefjast kl. 16 og aðgangseyrir er kr. 3.500.
Júlí
- 2. júlí Bríet leikur lög sín í rólegri búningi þar sem einlægni og kósíheit eru í fyrirrúmi
- 9. júlí Diddú og Davíð Þór Jónsson koma fram á tvöhundruðustu tónleikum safnsins
- 16. júlí Reynir Hauksson leikur á gítarinn í stofunni á Gljúfrasteini
- 23. júlí Bjarni Frímann verður við flygilinn í stofunni á Gljúfrasteini
- 30. júlí Pamela De Sensi, Guðríður St. Sigurðardóttir og Margrét Hrafnsdóttir flytja sólríka fuglatóna
Ágúst
- 6. ágúst Karl Olgeirsson leikur ættjarðarlög og þjóðlög með jazzívafi
- 13. ágúst Magnús Jóhann lætur píanótóna svífa um stofuna á Gljúfrasteini
- 20. ágúst Þorgerður Ása og Ásta Soffía gera íslenskri tangótónlist skil í tali og tónum
- 27. ágúst Kolbeinn Ketilsson tenór blandar ólíkum listformum saman við einsöngvarann
Listasalur Mosfellsbæjar
Listakonan Habby Osk sýnir í Listasalnum en sýningin Components opnar 30. júní og mun standa til 28. júlí. Titill sýningarinnar vísar í að vera partur af stærri heild eða kerfi og áhrif þess. Tengslin á milli parta geta verið viðkvæm og oft má lítið út af bregða til að breytingar verði og að heildin falli eða kerfið hrynji. Sýningin samanstendur af skúlptúrum og ljósmyndum þar sem verkin reiða sig á að hver partur standi sig.
Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 09:00-18:00 á virkum dögum í sumar.
Útimarkaður Mosskóga (1. júlí – 9. september)
Á útimarkaði Mosskóga í Mosfellsdal er hægt að kaupa varning frá ræktendum og framleiðendum í nágrenninu. Þar má nefna lífrænt ræktað grænmeti og ber, heimagerðar sultur og mauk, nýbakað brauð, silung frá Heiðabæ og rósir frá Dalsgarði.
Útimarkaður Mosskóga í Mosfellsdal, Dalsgarði 1, 271 Mosfellsbæ.
Opið alla laugardaga frá 1. júlí til 9. september frá kl. 10:00 – 15:00.
Leikhópurinn Lotta sýnir söngleikinn Gilitrutt (21. ágúst)
Sýningin fer fram mánudaginn 21. ágúst kl. 18:00 á túninu við Hlégarð.
Í ævintýrinu um Gilitrutt fléttast saman sögurnar um geiturnar þrjár og Búkollu auk þjóðsögunnar um Gilitrutt. Að auki fá áhorfendur að kynnast bróður hennar Gilitruttar honum Bárði, fólkinu á bænum Bakka og fleiri skemmtilegum persónum úr Ævintýraskóginum.
Miðaverð 3.500 kr. frítt fyrir 2ja ára og yngri. Bæði er hægt að nálgast miða á staðnum sem og á tix.is.
Í túninu heima (25. – 27. ágúst)
Fjölbreyttir menningarviðburðir eru í boði, tónleikar, myndlistasýningar, útimarkaðir og íþróttaviðburðir svo fátt eitt sé nefnt.
Hátíðin hefst formlega á föstudagskvöldi með skrúðgöngu, varðeld og brekkusöng í Álafosskvos.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi og stíga ávallt landsþekktar hljómsveitir ásamt heimafólki á svið.
Tindahlaupið í boði Nettó (26. ágúst)
Tindahlaupið fer fram laugardaginn 26. ágúst 2023. Hlaupið er utanvega um fjöll, heiðar og dali í bæjarlandi Mosfellsbæjar.
Boðið er upp á fjórar vegalengdir:
- 7 tindar – 38,2 km með 1822m hækkun. Rástími kl. 9:00.
- 5 tindar – 34,4 km með 1410m hækkun. Rástími kl. 9:00.
- 3 tindar – 19 km með 812m hækkun. Rástími kl. 11:00.
- 1 tindur – 12,4 km með 420m hækkun. Rástími kl. 11:00.
Skráning er til miðnættis miðvikudaginn 24. ágúst.
Nánari upplýsingar og skráning
Tengt efni
Vetrarþjónusta við göngustíga um jól og áramót
Jólatréð fyrir Miðbæjartorg úr heimabyggð
Fjórða árið í röð er jólatréð fyrir Miðbæjartorg sótt í Hamrahlíðarskóg.
Vetrarfrí í Mosfellsbæ 2024