Engin formleg dagskrá verður á vegum Mosfellsbæjar á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
Mosfellsbær hvetur eindregið til þess að íbúar geri sér dagamun og að minni viðburðir sem rúmast innan samkomutakmarkana eigi sér stað nú um helgina á ábyrgð þeirra sem halda þá.
Tindahlaup Mosfellsbæjar hófst í morgun, laugardaginn 28. ágúst, og tóku um 250 manns þátt í því.
Á morgun, sunnudaginn 29. ágúst, verður bæjarlistamaður Mosfellsbæjar útnefndur af menningar- og nýsköpunarnefnd og umhverfisnefnd veitir umhverfisviðurkenningar.
Íbúar Mosfellsbæjar og gestir þeirra eru hvattir til þess að halda í þær fjölskyldu- og vinahefðir sem hafa skapast í gegnum tíðina. Hefðbundið er að skreyta hús og garða í litum hvers hverfis og hver sumarkúla getur haldið sína garðveislu ef veður leyfir. Þá eru íbúar og gestir þeirra eindregið hvattir til þess að nýta útvistarmöguleika og aðra afþreyingu sem er því sem næst við hvert fótmál í bænum. Loks hefur Lágafellið verið lýst upp í hverfislitunum.
„Túnið hefur á síðustu árum verið okkur Mosfellingum kær viðburður sem markar sumarlok og upphaf vetrartíðar. Vegna samkomutakmarkana stendur Mosfellsbær ekki fyrir neinni formlegri dagskrá en ég vil hvetja alla íbúa og gesti þeirra að gera sér dagamun, skreyta hús og garða í hverfislitnum, ganga á fell eða um bæinn og eiga góða kvöldstund í sinni sumarkúlu. Við munum útnefna bæjarlistamann ársins og veita umhverfisviðurkenningar þó með breyttu sniði í lágstemmdri athöfn þar sem fulltrúar umhverfisnefndar og menningar- og nýsköpunarnefndar veita verðlaun og viðurkenningar.“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir