Í ljósi gildandi samkomutakmarkana verði ekki um formleg hátíðarhöld að ræða á vegum Mosfellsbæjar.
Í túninu heima er árleg bæjarhátíð Mosfellinga sem haldin er síðustu helgina í ágúst sem er afmælismánuður bæjarins. Hátíðin stendur venjulega í fjóra daga og lýkur með útnefningu bæjarlistamanns og afhendingu umhverfisviðurkenninga.
Undirbúningi hátíðarinnar í ár lauk í byrjun sumars en neyðarstjórn Mosfellsbæjar hefur komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi gildandi samkomutakmarkana verði ekki um formleg hátíðarhöld að ræða á vegum Mosfellsbæjar. Minni viðburðir sem rúmast innan samkomutakmarkana geta hins vegar átt sér stað dagana 26. til 29. ágúst á ábyrgð þeirra sem halda þá. En engir viðburðir verða, eins og áður segir, á vegum Mosfellsbæjar að undanskildu Tindahlaupi Mosfellsbæjar og útnefningu bæjarlistamanns og umhverfisviðurkenningar.
Tindahlaup Mosfellsbæjar sem féll niður í fyrsta sinn í fyrra verður haldið laugardaginn 28. ágúst. Gripið verður til ráðstafana sem gefist hafa vel við framkvæmd hlaupa þegar samkomutakmarkanir eru í gildi, svo sem með því að stýra rástíma.
Loks verður bæjarlistamaður Mosfellsbæjar útnefndur og umhverfisviðurkenningar veittar sunnudaginn 29. ágúst. Viðburðurinn verður eingöngu fyrir boðsgesti með tilliti til samkomutakmarkana.
Íbúar Mosfellsbæjar og gestir þeirra eru í ljósi þessarar stöðu hvattir til þess að halda í þær fjölskyldu- og vinahefðir sem hafa skapast í gegnum tíðina. Hefðbundið er að skreyta hús og garða í litum hvers hverfis og hver sumarkúla getur haldið sína garðveislu ef veður leyfir. Þá eru íbúar og gestir þeirra eindregið hvattir til þess að nýta útvistarmöguleika og aðra afþreyingu sem er því sem næst við hvert fótmál í bænum.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir