Árangur í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið umtalsverður eftir breytingar á rekstri urðunarstaðar SORPU í Álfsnesi. Á árinu 2024 dróst urðun þar saman um 90%, úr tæplega 53.700 tonnum í um 5.070 tonn. Þessi mikli samdráttur náðist með því að flytja blandaðan úrgang úr landi til orkuvinnslu í Svíþjóð og stöðva alfarið urðun á lífrænum og lyktarsterkum úrgangi.
„Árangurinn sem náðst hefur er framar öllum vonum. Afstaða Mosfellsbæjar hefur verið mjög skýr, að hætta urðun á lífrænum og blönduðum úrgangi í Álfsnesi og við náðum því í gegn í eigendasamkomulaginu sem var gert árið 2023. Við höfum fylgt því markvisst eftir í verkefnastjórn og með reglubundnum framvinduskýrslum” segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Sex af níu skilyrðum samkomulagsins hafa þegar verið uppfyllt. Meðal þeirra eru veigamestu skilyrðin um að urða hvorki lífrænan og lyktarsterkan úrgang í Álfsnesi, né blandaðan úrgang. Þá eru ákvæði í eigendasamkomulaginu um að boraðar verði fjöldi gassöfnunarhola í urðunarstaðinn til að draga úr lyktarmengun en alla lyktarmengun frá Álfsnesi má rekja til fyrri urðunar. Þá eru skilyrði í eigendasamkomulaginu að sorpbrennsla verði ekki staðsett á Álfsnesi.
Verkefnastjórn hefur fylgt eftir framvindu samkomulagsins, skipuð Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, Páli Björgvin Guðmundssyni framkvæmdastjóra SSH og Jóni Viggó Gunnarssyni framkvæmdastjóra Sorpu , auk Gunnars Bragasonar verkefnastjóra frá SORPU og Jóhönnu Hansen sviðsstjóra umhverfissviðs Mosfellsbæjar.