Stóri plokkdagurinn var um helgina og jafnframt er hreinsunarátak Mosfellsbæjar í fullum gangi. Hvoru tveggja gekk gríðarlega vel með góðu samstarfi við Aftureldingu, Skátafélagið Mosverja og með þátttöku íbúa.
Starfsfólk þjónustustöðvar er búið að keyra um allan bæ í morgun og hirða upp pokana sem plokkað var í. Þegar er búið að sækja mörg fullfermi af ruslapokum og mun starfsfólk klára að sækja alla poka í dag. Íbúar mega gjarnan láta vita í ábendingakerfi Mosfellsbæjar ef pokar verða eftir á einhverjum svæðum.
Hreinsunarátakið er enn í gangi og verður til 5. maí þar sem íbúar eru sérstaklega hvattir til að huga að nærumhverfi sínu og taka til í görðum og kringum hús. Gámar fyrir garðaúrgang verða aðgengilegir í hverfum bæjarins á meðan hreinsunarátakinu stendur:
- Holta- og Tangahverfi – Neðan Þverholts (milli Akurholts og Arnartanga)
- Höfða og Hlíðahverfi – Grenndarstöð við Bogatanga
- Teiga- og Reykjahverfi – Skarhólabraut ofan Reykjavegar og við Sunnukrika
- Hlíðartúnshverfi – Við Aðaltún
- Helgafellshverfi – Efst í Brekkulandi og við strætóskýli við Vefarastræti
- Leirvogstunga – Á stæði við stoppistöð á Tunguvegi
- Mosfellsdalur – Á bílastæði við Þingvallaveg