Þegar rýnt er í tölur um sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu má sjá að íbúar í Mosfellsbæ skilja eftir minna sorp m.v. íbúafjölda en íbúar annarra sveitarfélaga. Árið 2024 var blandaður úrgangur á hvern íbúa í Mosfellsbæ 72,8 kg. Seltjarnarnes kom næst með 80 kg. á hvern íbúa, svo Hafnarfjörður með 80,2 kg., Reykjavík með 81,7 kg., Garðabær með 83 kg. og að lokum Kópavogur með 84,6 kg. á hvern íbúa.
Jákvæð þróun sorphirðu í Mosfellsbæ
Íbúar Mosfellsbæjar hafa sýnt aukna ábyrgð í flokkun á heimilissorpi en mælingar sýna jákvæða þróun í sorphirðu sem endurspeglar bæði umbætur bæjarins í þjónustu en ekki síður vitundavakningu og aukna umhverfisvitund íbúa. Á myndinni má sjá hvernig hlutfall flokka á heimilissorpi skiptist árið 2024.
Sorphirða frá heimilum, hlutfall flokka 2024.
Með tilkomu grenndargáma í bænum hefur aðgengi íbúa að flokkunarstöðvum aukist en þar er opið allan sólarhringinn. Grenndargáma er nú að finna á Bogatanga, við Dælustöðvarveg og Vogatungu. Í sumar er stefnt að því að bæta við tveimur nýjum grenndarstöðvum í bænum.
Gögn vegna sorphirðu frá heimilum í Mosfellsbæ sýna hvað íbúar hafa tekið vel í flokkun heimilissorps en tölurnar sýna þróunina í fjölda tonna á milli áranna 2023 og 2024.
Sorphirða frá heimilum í tonnum - þróun milli ára 2023 - 2024.