Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar vinnur um þessar mundir að mótun nýrrar umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir sveitarfélagið. Í henni eru settar fram áherslur sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum til næstu ára, ásamt aðgerðum og lykilmælikvörðum. Mikilvægt er að stefnan sé í senn framsækin og raunhæf enda áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum sívaxandi viðfangsefni sveitarfélaga.
Fáir málaflokkar skipta ungt fólk jafn miklu máli og loftslagsmálin og þess vegna var lögð áhersla á að leita eftir sjónarmiðum unga fólksins í Mosfellsbæ við gerð stefnunnar. Vinnustofur voru haldnar í haust í FMOS og öllum grunnskólum sveitarfélagsins þar sem ungmenni komu saman til að ræða áskoranir, tækifæri og mikilvægar aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum í Mosfellsbæ. Samtalið skilaði frábærum tillögum ungmenna sem hafa verið til umræðu í umhverfisnefnd bæjarins og eru mikilvægt innlegg í stefnumótuninni.
Strax eftir áramót verður farið í samráð og samtal við íbúa Mosfellsbæjar um umhverfis- og loftslagsstefnuna með opnum íbúafundi auk þess sem opnað verður á rafrænar ábendingar.