Sunnudaginn 27. apríl verður Stóri plokkdagurinn haldinn hátíðlegur um land allt og að sjálfsögðu tekur Mosfellsbær þátt. Bærinn hvetur íbúa, starfsfólk fyrirtækja og aðra áhugasama til að taka virkan þátt með því að plokka rusl í nærumhverfi sínu og á opnum svæðum í bænum.
Ruslapokar og tæki til plokks
Frá miðvikudeginum 23. apríl verða ruslapokar aðgengilegir á eftirfarandi stöðum:
- fyrir utan Bókasafn Mosfellsbæjar í Kjarna
- í anddyri íþróttamiðstöðvanna að Varmá og Lágafelli
Pokarnir eru glærir og mælt er með að taka tvo: einn fyrir plast og annan fyrir annað rusl. Vinsamlega fyllið pokana ekki of mikið og lokið þeim vel með hnút svo að rusl fjúki ekki úr þeim.
Mikilvægt er að nota hanska og öryggisvesti, sérstaklega þegar plokkað er við umferðargötur. Börn ættu ekki að plokka meðfram umferðarþungum götum eins og Vesturlandsvegi.
Hægt er að fá ruslatínur að láni á Bókasafninu í tvær vikur í senn, með bókasafnskorti.
Starfsfólk þjónustustöðvar mun sækja pokanna eftir Stóra plokkdaginn en mikilvægt er að skilja þá eftir á sýnilegum og aðgengilegum stöðum. Íbúar eru hvattir til að skrá staðsetningu pokanna í ábendingakerfi Mosfellsbæjar.
Hreinsunarátak 22. apríl – 5. maí
Dagana 22. apríl til 5. maí stendur yfir hreinsunarátak á opnum svæðum, í hverfum og meðfram nýbyggingarsvæðum. Afturelding og Skátafélagið Mosverjar taka þátt og hjálpa til með krafti – eins og þau hafa gert með prýði undanfarin ár.
Íbúar eru sérstaklega hvattir til að huga að nærumhverfi sínu og taka til í görðum og kringum hús. Gámar fyrir garðaúrgang verða aðgengilegir í hverfum bæjarins á meðan hreinsunarátakinu stendur:
- Holta- og Tangahverfi – Neðan Þverholts (milli Akurholts og Arnartanga)
- Höfða og Hlíðahverfi – Grenndarstöð við Bogatanga
- Teiga- og Reykjahverfi – Skarhólabraut ofan Reykjavegar og við Sunnukrika
- Hlíðartúnshverfi – Við Aðaltún
- Helgafellshverfi – Efst í Brekkulandi og við strætóskýli við Vefarastræti
- Leirvogstunga – Á stæði við stoppistöð á Tunguvegi
- Mosfellsdalur – Á bílastæði við Þingvallaveg
Á sama tímabili fer einnig fram gatna- og stígahreinsun í hverfum bæjarins:
- 22. apríl – Reykja- og Krikahverfi
- 23. og 25. apríl – Teiga- og Helgafellshverfi
- 28. apríl – Holtahverfi
- 29. apríl – Tangahverfi
- 30. apríl – Hlíða- og Hlíðartúnshverfi
- 2. maí – Höfðahverfi
- 5. maí – Leirvogstunguhverfi