Mosfellsbær tekur þátt í Stóra plokkdeginum, laugardaginn 25. apríl, á Degi umhverfisins.
Með þátttökunni vill Mosfellsbær taka virkan þátt í þessu flotta umhverfisátaki sem fer fram undir merkjum félagsskaparins Plokk á Íslandi. Á þeim degi eru íbúar hvattir til að plokka rusl í sínum hverfum og á opnum svæðum.
Í ár vilja plokkarar landsins beina athygli sinni sérstaklega að heilbrigðisstofnunum, eins og heilsugæslunni og dvalar- og hjúkrunarheimilum, og með því sýna þeim táknrænan stuðning fyrir góð störf á erfiðum tímum.
Íbúar munu geta nálgast ruslapoka fyrir plokkið á Upplýsingatorgi Mosfellsbæjar í Kjarna, Þverholti 2, fyrir framan bókasafnið, á milli kl. 9:00 – 18:00.
Plokkarar geta síðan losað sig við fulla poka í ruslagáma við verslun Krónunar við Bjarkarholt, í boði verslunarinn og Terru umhverfisþjónustu.
Ennfremur er á grenndargámastöðvum við Dælustöðvarveg, Langatanga, Bogatanga og Skeiðholt að finna gáma fyrir flokkað rusl, plast og gler, auk þess sem endurvinnslustöð Sorpu við Blíðubakka er opin alla helgina og tekur á móti fjölmörgum endurvinnsluflokkum.
Starfsmenn Þjónustustöðvar Mosfellsbæjar munu síðan á mánudagsmorgun sækja þá poka sem plokkarar setja utan við lóðarmörk. Plokkarar eru beðnir um að láta starfsmenn Þjónustustöðvar vita hvar sækja þarf slíka poka með því að senda tölvupóst á mos[hja]mos.is eða hringja í Þjónustuver Mosfellsbæjar í síma 525-6700.
Tengt efni
Er líða fer að jólum í Mosfellsbæ
Fjöldi viðburða verða í boði í Mosfellsbæ í aðdraganda jóla.
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos