Mosfellsbær er um 220 ferkílómetrar að stærð í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í skjóli fella, heiða, vatna og strandlengju.
Náttúruperlur og sögulegar minjar eru víða í Mosfellsbæ, má þar nefna Tröllafoss, Helgufoss, Varmá, Mosfellskirkju og fornleifauppgröft við Hrísbrú í Mosfellsdal.
Sjálfbært samfélag
Mosfellsbær hefur í gegnum árin markað sér metnaðarfullar stefnur um sjálfbært samfélag m.a. með virkri þátttöku í Staðardagskrá 21 (e. Local Agenda 21) með gerð stefnumótunar, framkvæmdaáætlunar og árlegs verkefnalista. Í stefnumörkun sveitarfélagsins mátti sjá framtíðarsýn bæjarfélagsins um sjálfbært samfélag og helstu atriði sem leggja verður áherslu á til að markmið um sjálfbæra þróun megi fram að ganga. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem sú þróun sem gerir okkur kleift að uppfylla þarfir okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Í því felst að við skilum jörðinni af okkur ekki í verra ástandi til komandi kynslóða en við tókum við henni.
Mosfellsbær hlaut Staðardagskrárverðlaunin árið 2001 fyrir gott starf í þágu sjálfbærni. Mosfellsbær hefur einnig tekið þátt í ýmsum verkefnum um sjálfbærni. Þar má nefna þátttöku í norrænu samstarfsverkefni um sjálfbærni og uppbyggingu betri miðbæja og íbúalýðræði (Attractive Nordic Towns) á árunum 2017 – 2019.
Náttúruvernd
Mosfellsbær leggur mikla áherslu á náttúrvernd í sveitarfélaginu. Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar fer með hlutverk náttúruverndarnefndar. Hlutverk náttúruverndarnefnda er að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál og jafnframt stuðla að náttúruvernd á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna.
Náttúrurverndarnefnd Mosfellsbæjar hefur árlega sótt samráðsfund Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga þar sem farið er yfir málefni nefndanna.
Nánari upplýsingar um hlutverk náttúruverndarnefnda má finna í Lögum um náttúruvernd.
Verkefni sem bærinn hefur komið að:
- Verndun náttúruminja í bænum, eins og fossa og áa
- Varmárósar voru friðlýstir árið 1980 og friðlýsing var endurskoðuð árið 1987
- Úlfarsá og Blikastaðakró, Leiruvogur, Tröllafoss og Varmá eru náttúruminjar á náttúruminjaskrá
- Ýmis svæði og staðir sem hafa verndargildi vegna náttúrufars eru afmörkuð sem hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar, en það eru Leiruvogur, Urðir í miðbæ Mosfellsbæjar, Úlfarsá og Blikastaðakró, Kaldakvísl, Suðurá, Varmá, Skammadalslækur og Hólmsá
- Lokun ólöglegra akslóða á fellum í bænum í náninni samvinnu við landeigendur
- Kortlagning á slóðum í bænum, gönguslóðum, reiðslóðum og akslóðum, í samvinnu við hagsmunaaðila
- Flokkun vatnasviða þar sem ástand vatna og áa í landi Mosfellsbæjar var kortlagt
- Reglulegt hreinsunarátak meðfram ströndum og ám í bænum
- Bættar fráveitutengingar frá íbúðarhúsum og hesthúsahverfi þar sem húsaskólp er nú leitt í gegnum skólpdælustöðvar til hreinsistöðvar í Reykjavík
- Hreinsun ofanvatns frá nýrri íbúahverfum með sérstökum hreinsibúnaði
Vatnsvernd
Ofanvatn eða regnvatn er leitt úr nálægum byggðum út í Varmá en það er eðlileg og nauðsynleg ráðstöfun sem þekkist yfirleitt þar sem ár renna í þéttbýli. Þá er verið að tryggja að vatn úr nágrenninu skili sér í árnar til að þær þorni ekki upp á sumrin.
Þess má geta að síðustu misseri hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana vegna fráveitumála. Til dæmis er búið að hanna nýja setþró sem hreinsa á ofanvatn í Reykjahverfi. Ráðgert er að staðsetja setþróna á landskika ofan Reykjamels og Reykjabyggðar.
Ef íbúar verða varir við óvenjulega mengun í Varmá þá er nauðsynlegt að tilkynna hana til Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.
Þeim tilmælum er beint til íbúa og rekstraraðila í byggð sem liggur að Varmá, þ.e. Reykjabyggð og Álafosskvos, að sýna aðgát þegar kemur að umgengni við ræsi í götum. Óheimilt er að hella skaðlegum efnum í niðurföll og óæskilegt er til dæmis að þvo bíla í húsagötum.
Mengunarvarnir
Mengunar- og hollustuháttamál eru í höndum Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Það er staðsett að Hlíðarsmára 14, 201 Kópavogi, sími: 550-5400 og tölvupóstur hhk@heilbrigdiseftirlit.is.
Loftgæði
Hægt að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgæðavef Umhverfisstofnunar.
Mosfellsbær ásamt Reykjavíkurborg eru hluti af tilraunaverkefni um uppbyggingu loftgæðamælanets á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið ReSource hefur séð um að leiða verkefnið og fylgja því eftir en verkefnið hófst í maí 2022 og er gert ráð fyrir að því ljúki í maí 2024. Þrír loftgæðamælar voru settir upp í Mosfellsbæ við Varmárskóla, Krikaskóla og Lágafellsskóla.
Lyktarmengun vegna urðunarstaðar Sorpu í Álfsnesi
Umhverfisstofnun fer með eftirlit með starfsseminni og mun vinna úr innsendum tilkynningum sem einnig berast Heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, stjórnendum og stjórn SORPU sem og starfsfólki og kjörnum fulltrúum Mosfellsbæjar.