Á fundi bæjarstjórnar þann, 24. janúar, var fundargerð skipulagsnefndar frá 19. janúar staðfest en á þeim fundi voru lagðar fram umsagnir vegna skipulags Blikastaðalands.
Um var að ræða skipulagslýsingu sem var auglýst 13. desember í skipulagsgáttinni og höfðu íbúar og aðrir hagsmunaaðilar mánuð til að senda inn umsagnir sínar og ábendingar. Skipulagslýsingin er fyrsta skrefið í samráði vegna fyrsta áfanga Blikastaðalands. Í lýsingu skal koma fram hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við skipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli samkvæmt lögum.
Skipulagssvæði 1. áfanga er u.þ.b. 30-35 ha að stærð og liggur upp að núverandi byggð við Þrastarhöfða. Svæðið verður skilgreint sem íbúðarbyggð og miðsvæði. Áhersla verður á samspil byggðar og náttúru, fjölbreyttar samgöngur, blágrænar ofanvatnslausnir, samfélagsleg gæði, gæði byggðar og aukinn líffræðilegan fjölbreytileika grænna svæða. Gert er ráð fyrir á bilinu 1.200-1.500 íbúðum sem skiptast muni í sérbýli, einbýlis-, par-, raðhús og fjölbýli eftir aðstæðum í landi og nálægð þeirra við helstu samgönguæðar.
Almennar áherslur skipulagsvinnunnar eru m.a.:
- Að skapa aðlaðandi bæjarmynd þar sem gamli Blikastaðabærinn er hjarta svæðisins og aðdráttarafl.
- Að uppbygging og þróun taki tillit til þriggja þátta sjálfbærni; samfélags, efnahags og umhverfis.
- Að móta skipulag með áherslur á náttúru og umhverfisgæði s.s. tengingar og aðgengi að náttúrugæðum, grænum svæðum og dvalarrýmum.
- Að tryggja framboð á fjölbreyttum íbúðum í blandaðri byggð með gott aðgengi að fjölbreyttum ferðamátum sem styðja við uppbyggingu Borgarlínu.
- Að tryggja framboð íbúða fyrir ólíka hópa samfélagsins, þarfir þeirra og stuðla að blöndun samfélags, ólíkra hópa og aldurs.
- Að skapa eftirsóknarvert, lifandi og skapandi umhverfi og byggð þar sem áhersla er á gæði byggðar, íbúða og almenningsrýma vegna birtu, útsýnis, hljóðvistar og grænna lausna.
- Að tryggja fjölbreytt almenningsrými, dvalar- og leiksvæði sem hvetja til mannlegra samskipta og blöndunar fjölbreyttra hópa.
- Að móta skipulag sem hlýtur vistvottun samkvæmt BREEAM vistvottunarkerfinu, m.a. til þess að tryggja gæði uppbyggingar og byggðar til lengri framtíðar.
- Að huga að rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á viðráðanlegu verði.
11 umsagnir bárust frá eftirfarandi aðilum; Veitum, Reykjavíkurborg, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirlitinu HEF, Náttúrufræðistofnun, Skipulagsstofnun, Veðurstofu Íslands, Minjastofnun, Svæðisskipulagsnefnd Höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðinni og hagsmunasamtökum íbúa í Mosfellsbæ.
Sjá umsagnirnar:
Umsagnir munu nýtast við áframhaldandi vinnu máls við gerð tillagna, mats á umhverfisáhrifum og annarra þeirra þátta sem lýsingin fjallaði um. Eins og fram kemur í skipulagslýsingunni er um eitt og hálft ár í endanlega útfærslu deiliskipulags. Drög að fyrirhuguðu kynningar og samráðsferli tilgreina helstu áfanga verkefnisins en undir hverjum lið má búast við fjölbreyttu samráði á hinum ýmsu stigum. Samráð sem varðar mikilvæga þætti uppbyggingarinnar svo sem vegna samgangna, skólaþjónustu, leikskóla, húsnæðis velferðarþjónustu, nýrra útivistarsvæða, gróðurfars og lífríkis. Leitað verður til til fagfólks, félagasamtaka og íbúa til aðstoðar, eftir því sem við á.
- Janúar til september 2024. Vinnsla skipulagstillagna, fjölþætt samráð við umsagnaraðila og ýmsa aðra hagaðila.
- September 2024 verða skipulagstillögur kynntar á forkynningarstigi í skipulagsgátt og almennur kynningarfundur um stöðu verkefnisins.
- Október 2024 til maí 2025. Skipulagstillögur unnar áfram, frekara samráð við hagsmunaaðila.
- Vorið 2025. Skipulagstillögur auglýstar til endanlegra umsagna og athugasemda í skipulagsgáttinni ásamt kynningarfund með íbúum og öðrum hagaðilum.
- Sumarið 2025. Unnið úr síðustu ábendingum og stefnt á samþykktarferli og gildistöku nýs skipulags.
Mosfellsbær fagnar áhuga íbúa á uppbyggingunni að Blikastöðum og stofnun nýs hagsmunafélags íbúa. Að gefnu tilefni vill Mosfellsbær hins vegar koma því á framfæri að íbúakönnun er fjallar um Blikastaði, á vegum íbúasamtaka, er ekki unnin í samvinnu við Mosfellsbæ.