Mosfellsbær annast snjómokstur og hálkueyðingu á þeim vegum og stígum sem eru á ábyrgð sveitarfélagsins.
Þjóðvegir og aðrir vegir, s.s. Vesturlandsvegur, Reykjavegur, Hafravatnsvegur og Þingvallavegur, eru á ábyrgð Vegagerðarinnar.
Mosfellsbær annast ekki snjómokstur og hálkueyðingu á einkavegum.
Snjómokstur og hálkueyðing er að hluta í höndum starfsmanna þjónustustöðvar Mosfellsbæjar og hluta í höndum verktaka á vegum bæjarins.
Vinna við snjómokstur og hálkueyðingu
Í forgangi er að tryggja sem fyrst greiða umferð um þær götur og stíga sem mikilvægastar eru til samgangna. Stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur njóta þannig forgangs í þjónustu, ásamt tengistígum í hverfum og göngustígum að skólum.
Hægt er að sjá staðsetningu gatna og stíga í forgangi á Kortavef Mosfellsbæjar. Í valmyndinni hægra megin er smellt á Samgöngur > Snjómokstur/Hálkueyðing og svo er hægt að velja að sjá húsagötur, stíga, stofn- og tengibrautir auk gatna sem Vegagerðin sér um.
Vinna við snjómokstur og hálkueyðingu hefst venjulega snemma morguns, oft kl. 4-5 að nóttu til að reyna að tryggja að helstu götur og stígar séu færir þegar fólk fer til vinnu og skóla. Um helgar getur þessi vinna þó hafist síðar af tillitssemi við íbúa til að raska ekki ró of snemma morguns.
Íbúagötur í hverfum
Íbúagötur í hverfum eru hálkuvarðar og hreinsaðar séu þær þungfarnar, mikil hálka eða snjódýpt meiri en 12-15 cm. Sú vinna fer þó ekki fram fyrr en forgangsþjónustu er lokið við helstu stofnbrautir og tengistíga. Undantekning getur verið gerð ef hætta er á að frysti þegar snjóhryggir hafa myndast.
Við snjóhreinsun íbúagatna er líklegt að við innkeyrslur myndist snjóruðningar sem Mosfellsbær sér ekki um að hreinsa. Það fellur í hlut íbúa að hreinsa burt snjó úr innkeyrslum.
Erfiðar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður
Oft myndast skyndileg hálka t.d. þegar hefur rignt og skyndilega frystir, eða þegar þíða myndast ofan á frosna jörð. Við slíkar aðstæður getur oft verið launhált og nauðsynlegt að fara varlega. Starfsmenn leitast við að bregðast við slíkum aðstæðum sem fyrst og salta og hálkuverja. Mosfellsbær þiggur með þökkum allar ábendingar íbúa og vegfarenda þegar slíkar aðstæður koma upp.
Í óveðrum þar sem bæði er mikið rok og ofankoma í formi snjós getur reynst erfitt að halda meginleiðum opnum. Við slíkar aðstæður er eftir fremsta megni leitast við að koma upplýsingum á vef Mosfellsbæjar til að upplýsa um aðstæður og stöðu mála.
Sandur og salt
Íbúar geta sótt sand og/eða salt til að bera á plön og stéttir við heimahús, hjá Þjónustustöðinni við Völuteig 15. Nauðsynlegt er að koma með poka eða ílát undir sandinn/saltið.