Úthlutun lokið
Úthlutun lóða við Fossatungu og Langatanga í Mosfellsbæ
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt úthlutunarskilmála og lágmarksverð fyrir tvær einbýlishúsalóðir við Fossatungu og fjórar raðhúsalóðir við Langatanga.
Um er að ræða tvö ólík svæði í sveitarfélaginu. Einbýli í Fossatungu eru á fallegum stað, ofarlega, í nær fullbyggðu hverfi Leirvogstungu. Hverfið einkennist af sérbýlishúsauppbyggingu með aðgengi að grænum svæðum og góðum stígum í jaðri byggðar. Leikskóli er í miðju hverfisins, mikil nálægð við útivistarsvæði ævintýragarðsins og góð tenging við Vesturlandsveg.
Raðhús að Langatanga eru á spennandi þéttingarreit við miðbæ Mosfellsbæjar í Bjarkarholti. Hönnun hverfis sem sækir einkenni sín í aðliggjandi gróna byggð. Skóli, sundlaug og öll nauðsynleg verslun og þjónusta er í göngufæri. Góð tenging er við Vesturlandsveg en áætlað er að Borgarlína fari um miðsvæðið í framtíðinni.
Í þessari úthlutun er óskað eftir tilboðum í byggingarrétti umræddra lóða, sbr. nánari upplýsingar hér að neðan:
Lóð | Hæðir | Húsgerð | Fjöldi íbúða | Bygg. magn | Lágmarksverð í kr. |
Langitangi 33 a-c | 2 | Raðhús | 3 | 700 | 28.000.000 |
Langitangi 31 a-d | 2 | Raðhús | 4 | 700 | 28.000.000 |
Langitangi 29 a-d | 2 | Raðhús | 4 | 700 | 28.000.000 |
Langitangi 27 a-d | 2 | Raðhús | 4 | 700 | 28.000.000 |
Fossatunga 33 | 1 | Einbýli | 1 | 282,4 | 14.120.000 |
Fossatunga 28 | 1 | Einbýli | 1 | 250 | 12.500.000 |
Hverri lóð verður úthlutað til þess aðila sem gerir hæst tilboð í viðkomandi lóð, enda uppfylli viðkomandi aðilar skilyrði um fjárhagslegt hæfi sem tilgreind eru í 3. gr. úthlutunarreglna Mosfellsbæjar vegna byggingarlóða.
Bæði einstaklingar og lögaðilar geta lagt fram tilboð í byggingarrétt lóða en hver umsækjandi getur þó aðeins lagt fram eitt gilt tilboð í hverja lóð. Umsækjandi getur aðeins fengið úthlutað einni einbýlishúsalóð en engin mörk eru á fjölda annarra lóða.
Nánari upplýsingar eins og mæliblöð, hæðarblöð, greinargerð deiliskipulags og uppdrættir er að finna á kortavef Mosfellsbæjar. Ólíkir skilmálar gilda um hverja lóð og hvert svæði fyrir sig í samræmi við samþykkt deiliskipulög. Mikilvægt er að kynna sér skilmála hverrar lóðar.
Tilboð í lóðir skulu berast Mosfellsbæ fyrir kl. 16:00 þann 7. desember 2023 og verða eingöngu móttekin með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt sveitarfélagsins.
Athygli er vakin á því að lágmarksverð lóða miðast við greiðslu byggingarréttargjalds en auk þess þurfa lóðarhafar að greiða gatnagerðargjald skv. samþykkt Mosfellsbæjar um gatnagerðargjöld.
Allar nánari upplýsingar um úthlutun lóðanna er að finna á slóðinni mos.is/lodir og hjá Ómari Karli Jóhannessyni, lögmanni á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar og Kristni Pálssyni skipulagsfulltrúa í síma 525-6700.
Tilboð verða opnuð og tekin fyrir á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar kl. 07:30 fimmtudaginn 14. desember 2023.