Eins og flestir íbúar vita þá er Mosfellsbær heilsueflandi samfélag sem þýðir að sveitarfélagið setur heilsu og heilsueflingu í forgrunn við alla stefnumótun og útfærslu á þjónustu í samvinnu við íbúa og starfsmenn.
Hugmyndin á bak við þá nálgun er að þannig sé unnt að stuðla að aðgengi, þekkingu og sterkri umgjörð sem gerir öllum íbúum kleift að taka ákvarðanir sem eru heilsusamlegar. Mosfellsbær var fyrsta sveitarfélag landsins til að gera samning við embætti Landlæknis um að verða heilsueflandi samfélag.
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar ákvað í júní 2019 að setja af stað heildstæða stefnumörkun í lýðheilsu og forvörnum fyrir Mosfellsbæ.
Markmiðið með mótun stefnunnar er því að tryggja að í Mosfellsbæ þróist enn öflugra og heilbrigðara samfélag öllum til heilla og að Heimsmarkmið og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna endurspeglist í lýðheilsu- og forvarnarstefnu bæjarins.
Lýðheilsu- og forvarnarstefnunni er þannig ætlað að:
- auka þekkingu á mikilvægi heilsueflingar
- auka þekkingu á þeim fjölbreyttu möguleikum sem eru til heilsueflingar innan sveitarfélagsins
- auka þátttöku í heilsueflandi athöfnum
- minnka líkur á athöfnum sem hafa neikvæð áhrif á heilsu og líðan og
- auka lífsgæði, öryggi og ánægju íbúa
Loks er lýðheilsu- og forvarnarstefnunni ætlað að tryggja að áherslur á sviði lýðheilsu og forvarna séu samþættar við aðrar stefnur sveitarfélagsins og stuðla að samvinnu við íbúa og starfsfólk Mosfellsbæjar.
Öllum verkefnum Mosfellsbæjar á sviði lýðheilsu og forvarna er ætlað að tryggja jöfnuð til heilsueflandi athafna meðal allra íbúa, þ.e. barna, unglinga, ungs fólks, fjölskyldna og eldri borgara með það að markmiði að mæta ólíkum þörfum hópa. Stýrihópur verkefnisins hefur með höndum nánari skilgreiningu verkefna, aðgerða, mælikvarða og mat á árangri.
Um samráð við við gerð lýðheilsu- og forvarnarstefnunnar
Við mótun stefnunnar reyndist ekki unnt að halda opinn fund íþrótta- og tómstundanefndar þar sem kallað yrði eftir hugmyndum íbúa vegna samkomutakmarkana. Dagana 19. nóvember til 22. desember 2020 var hins vegar leitað eftir hugmyndum að markmiðum og leiðum við útfærslu áhersluþátta stefnunnar sem þá lágu fyrir í drögum byggt á viðtölum fjöld aðila. Samráðið átti sér stað undir merkinu „Okkar heilsu Mosó“ á samráðsgáttinni Betra Ísland. Við samráðið settu íbúar fram 30 tillögur og var unnið úr þeim við lokafrágang þeirra tillagna sem íþrótta- og tómstundanefnd gerði að sínum.
Áhersluflokkar lýðheilsu- og forvarnarstefnu Mosfellsbæjar eru:
- Skólastarf þar sem yfirmarkmiðið er að allt skólastarf í Mosfellsbæ verði heilsueflandi.
- Æskulýðs-, félags- og íþróttastarf þar sem yfirmarkmiðið er að tryggja íbúum Mosfellsbæjar gott aðgengi að æskulýðs-, félags- og íþróttastarfi og að sú starfsemi þróist í takt við þarfir bæjarbúa.
- Öryggi íbúa og forvarnir þar sem yfirmarkmiðið er að heilsa og öryggi íbúa verði haft að leiðarljósi í allri stefnumótun og að áhersla verði lögð á snemmtæka íhlutun með forvörnum.
- Íbúar og starfsfólk þar sem yfirmarkmiðið er að stuðlað verði að stuðningi og aðgerðum til heilsueflingar og aukinna lífsgæða fyrir íbúa og starfsmenn.
- Heilbrigðisþjónusta þar sem yfirmarkmiðið er að Mosfellsbær sé í virku samstarfi við heilbrigðisyfirvöld um aukinn aðbúnað og gæði heilbrigðisþjónustu í Mosfellsbæ
- Umhverfi og samgöngur þar sem yfirmarkmiðið er að stuðlað verði að útivist og heilsueflingu í sveitarfélaginu og að íbúar í Mosfellsbæ hafi gott aðgengi að útivistarsvæðum og heilsueflandi þjónustu sem leiði til bættrar lýðheilsu. Stuðlað verði að því að nærumhverfi bæjarbúa verði fallegt og snyrtilegt.
Tengt efni
Fjallahjólabrautin „Flækjan“ opnuð og frisbígolfvöllurinn endurvígður
Hjólað í vinnuna 8. - 28. maí 2024
Fjallahjólabraut og frisbígolf í Ævintýragarðinum
Framkvæmdir hófust í morgun við nýja fjallahjólabraut í Ævintýragarðinum.