Mosfellsbær er sjöunda stærsta bæjarfélag landsins og hefur vaxið hratt undanfarin ár. Íbúafjölgunin hefur skýr tengsl við þá eiginleika sem einkenna Mosfellsbæ sem eftirsóknarverðan bæ með beina tengingu við náttúruperlur og útivist í blöndu borgarsamfélags og sveitar.
Bærinn er í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, er um 220 ferkílómetrar að stærð og státar af víðáttumiklum náttúrulegum svæðum með fellum, heiðum, vötnum og strandlengju og allir íbúar eru aðeins nokkrar mínútur að komast beint út í náttúruna. Þessi eiginleiki Mosfellsbæjar er mikilvægur út frá sjónarmiðum lýðheilsu, heilsueflingar og forvarna og er hluti af styrkleikum samfélagsins.
Almennt um gerð stefnunnar
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar ákvað í júní 2019 að setja af stað heildstæða vinnu við stefnumörkun í lýðheilsu og forvörnum fyrir Mosfellsbæ. Mótun lýðheilsu- og forvarnarstefnu er ætlað að skerpa á markmiðum, leiðum og sérstöðu Mosfellsbæjar sem heilsueflandi samfélags. Mosfellsbær er leiðandi í hópi sveitarfélaga sem láta sig heilsueflingu íbúa og starfsfólks varða.
Markmiðið með mótun stefnunnar er að tryggja að í Mosfellsbæ þróist enn öflugra og heilbrigðara samfélag öllum til heilla og áhersla á að Heimsmarkmið og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna endurspeglist í lýðheilsu- og forvarnarstefnu bæjarins.
Lýðheilsu- og forvarnarstefnunni er þannig ætlað að:
- auka þekkingu á mikilvægi heilsueflingar
- auka þekkingu á þeim fjölbreyttu möguleikum sem eru til heilsueflingar
- auka þátttöku í heilsueflandi athöfnum
- minnka líkur á athöfnum sem hafa neikvæð áhrif á heilsu og líðan
- auka lífsgæði, öryggi og ánægju íbúa
Framtíðarsýn Mosfellsbæjar til ársins 2027
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.
Áhersluflokkar í stefnu Mosfellsbæjar
Áhersluflokkar í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag og undir hverjum áhersluflokki eru þrjár áherslur.
Þannig vill Mosfellsbær vera persónulegur, skilvirkur og snjall þegar kemur að því að veita rétta þjónustu. Í áhersluflokknum flott fólk vill Mosfellsbær vera samstarfsfús, framsækinn og meðvitaður. Þegar kemur að stoltu samfélagi vill Mosfellsbær vera eftirsóttur, heilbrigður og sjálfbær.
Á sviði lýðheilsu- og forvarna er mikilvægt að Mosfellsbær eigi leiðandi þátt í að auka lífsgæði íbúa, gæta að heilbrigði og hvetji til þátttöku í íþróttum og hreyfingu enda slíkt einn að megin áhrifaþáttum lýðheilsu og forvarna. Samstarf sveitarfélagsins við íbúa og samtök þeirra á sviði lýðheilsu- og forvarna skiptir miklu máli og er þáttur í að viðhalda þeim félagsauði sem einkennir samfélagið og birtist meðal annars í öflugu samstarfi einstaklinga og íþrótta- og tómstundafélaga og félagasamtaka sem er kjarni þess að Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Áhersla á heilbrigt umhverfi, nálægð við náttúru og samtakamáttur íbúa er lykill að framsækni sveitarfélagsins og hefur áhrif á vinsældir til búsetu.
Þeir tveir áhersluþættir í stefnu Mosfellsbæjar sem tala hvað skýrast við lýðheilsu- og forvarnarstefnuna eru áherslur á að vera heilbrigður og sjálfbær. Undir heilbrigði er áherslan: „Við erum heilsueflandi samfélag. Við hvetjum, eflum og styðjum íbúa til að stunda heilsusamlegan lífstíl og lækkum þröskulda til þátttöku.“ Á sviði sjálfbærni er áherslan þessi: „Við látum umhverfið okkur varða og sinnum málaflokknum af kostgæfni. Nálægð við náttúruperlur og vernd þeirra er nýtt samfélaginu til góðs og til að vekja athygli á sveitarfélaginu.“
Gildi Mosfellsbæjar
Gildi Mosfellsbæjar eru leiðarljós í allri starfsemi sveitarfélagsins, voru mótuð árið 2007, útfærð og skilgreind að nýju á starfsdegi starfsmanna haustið 2016 en gildin eru:
- jákvæðni
- virðing
- umhyggja
- framsækni
Stefnuáherslur í lýðheilsu- og forvörnum
Áhersluflokkar lýðheilsu- og forvarnarstefnu
- Skólastarf
- Æskulýðs-, félags- og íþróttastarf
- Öryggi íbúa og forvarnir
- Íbúar og starfsfólk
- Heilbrigðisþjónusta
- Umhverfi og samgöngur