Metþátttaka var á setningarathöfn bæjarhátíðarinnar Í túninu heima í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ í gærkvöldi.
Á bilinu 3-4 þúsund manns voru samankomin í blíðskaparveðri. Safnast var saman við Kjarna á miðbæjartorginu í Mosfellsbæ og gengið í skrúðgöngu í Álafosskvosina. Þar setti Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri hátíðina og Gréta Salome tók nokkur lög. Þá tók við brekkusöngur fram eftir kvöldi í umsjón þeirra Hilmars Gunnarssonar og Ágústar Linn sem náði hápunkti með blyssýningu björgunarsveitarinnar Kyndils. Að sögn Auðar Halldórsdóttur, verkefnisstjóra menningarmála hjá Mosfellsbæ fór hátíðin mjög vel fram og góð stemning í kvosinni.
Í dag er fjölbreytt dagskrá framundan, meðal annars sumarhátíð í bæjarleikhúsinu, opið í húsdýragarðinum við Hraðastaði, markaður í Álafosskvos, kaffihús Mosverja, garðtónleikar víða um bæinn, svo nokkrir viðburðir séu nefndir.
Tindahlaupið fór vel af stað í morgun en aldrei hafa fleiri skráningar verið í hlaupið eða 407 manns. Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs stjórnaði upphitun. Barnaskemmtun hófst við Hlégarð kl. 12:00 í dag. Hoppukastali og leikjavagn UMFÍ færist af Stekkjarflöt í íþróttahúsið Fellið vegna veðurs.
Í kvöld býður Mosfellsbær upp á stórtónleika á Miðbæjartorginu. Fram koma: Sigga Ózk, Mugison, Páll Rósinkranz úr Jet Black Joe, Sprite Zero Klan, Diljá Pétursdóttir og Páll Óskar. Kynnir verður Dóri DNA. Björgunarsveitin Kyndill skýtur upp flugeldum af Lágafelli skömmu eftir að tónleikum lýkur.
Tengt efni
Hundahlaupið haldið í tengslum við bæjarhátíð
Áhersla á öryggi á bæjarhátíðinni Í túninu heima
Bæjarhátíðin Í túninu heima var formlega sett á hátíðardagskrá í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellsbæ í gær.
Starfsmenn sem hafa náð 25 ára starfsaldri heiðraðir