Mosfellsbær auglýsir hér með til kynningar deiliskipulagslýsingu skv. 40.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Fyrir gerð deiliskipulags á 17,4 ha svæði úr landi Blikastaða í Mosfellsbæ. Deiliskipulagssvæðið afmarkast af Vesturlandsvegi, Korpúlfsstaðalandi, Úlfarsá og sveitarfélagsmörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Megin viðfangsefni deiliskipulagsins er að skipuleggja svæði fyrir verslun og þjónustu ásamt léttum þrifalegum iðnaði. Vandað verður til ásýndar hverfisins og gætt að verndun náttúru og lífríkis meðfram Úlfarsá. Á svæðinu verður gert ráð fyrir belti fyrir tengiveg og Borgarlínu sem og hjóla- og gönguleiðir. Í aðalskipulagi er svæðið tilgreint sem blanda af verslunar-, þjónustu- og athafnarsvæði, 128-V/A.
Í deiliskipulagslýsingum kemur lögum samkvæmt fram hvaða áherslur sveitastjórn hefur við skipulagsgerðina. Upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu, fyrirhugað skipulagsferli hvað varðar kynningu og samráð gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Þeir sem vilja kynna sér málið nánar eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við skipulagsfulltrúa. Deiliskipulagslýsingin liggur frammi í þjónustuveri Mosfellsbæjar á 2. hæð Þverholts 2, 270 Mosfellsbæ og hana má einnig finna á vef bæjarins á slóðinni mos.is/skipulagsauglysingar.
Athugasemdum og ábendingum varðandi lýsinguna má skila til þjónustuvers Mosfellsbæjar eða til skipulagsfulltrúa fyrir 4. október 2019.
13. september 2019
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar