Menntastefna Mosfellsbæjar 2022-2030, „Heimurinn er okkar“ var samþykkt af fræðslunefnd Mosfellsbæjar á fundi nefndarinnar þann 28. mars.
Að mótun stefnunnar kom stór hópur barna, starfsfólks skóla- og frístundastarfs, foreldra og sérfræðinga og þakkaði nefndin öllum hagaðilum fyrir þeirra þátt í vinnunni.
Þann 7. október 2020 var samþykkt í fræðslunefnd að hefja vinnu við endurskoðun á skólastefnu Mosfellsbæjar frá árinu 2010. Ákveðið var að heiti stefnunnar yrði menntastefna Mosfellsbæjar með gildistíma til 2030. Stefnan verður kynnt og innleidd á næsta skólaári en stoðir stefnunnar eru vöxtur, fjölbreytni og samvinna. Fræðslunefnd telur að stefnan styrki enn frekar öflugt og framsækið skóla- og frístundastarf í Mosfellsbæ og muni styðja við farsæla innleiðingu þeirra markmiða sem að er stefnt.
Leiðarljós menntastefnunnar
Leiðarljós menntastefnu Mosfellsbæjar er að skóla- og frístundastarfið sé í fremstu röð og þar fái allir notið sín.
Unnið er að velferð og vexti allra hagaðila með jákvæðum samskiptum, valdeflingu, sveigjanleika og upplýsingum um starfið.
Stoðir menntastefnu Mosfellsbæjar
Stoðir menntastefnunnar eru þrjár; vöxtur, fjölbreytni og samvinna. Þær skarast og eru nátengdar hver annarri.
Til að allir blómstri í skóla- og frístundastarfi þarf fjölbreytni og góða samvinnu hagaðila.
Vöxtur
- Forsenda þess að börn geti lært og dafnað er að þeim sé búið öruggt umhverfi þar sem færni þeirra er aukin á sem fjölbreyttastan hátt og sjálfsmynd þeirra styrkt. Í skóla- og frístundastarfi er því lögð áhersla á menntun, öryggi, vellíðan, snemmtækan stuðning og heilsueflingu.
Markmið vaxtarstoðar eru að tryggja öryggi, vellíðan og vöxt allra í skóla- og frístundastarfi og að leggja áherslu á þjálfun, stuðning og handleiðslu barna, foreldra og starfsfólks til að tryggja farsæld.
Fjölbreytni
- Fjölbreytt, skapandi og sveigjanlegt skóla- og frístundastarf mæti ólíkum þörfum og styrkleikum barna og stuðli að farsæld þeirra.
- Markmiðið er að auka sveigjanleika starfsins og þar með efla trú barna á eigin getu. Þannig verða þau betur í stakk búin til að mæta mismunandi verkefnum í námi, leik og starfi.
Markmið stoðarinnar fjölbreytni eru þekking og skilningur á þörfum, áhugasviðum, styrkleikum og áskorunum barna auk náms þar sem lögð er áhersla á sköpun, hæfni, virkni og frumkvæði barna.
Samvinna
- Skýr sameiginleg sýn hagaðila, heilindi, uppbyggileg og lausnamiðuð umræða tryggir góða samvinnu. Þannig verða til árangursrík verkefni í skóla- og frístundastarfi þar sem börnin eru í brennidepli.
Markmið samvinnustoðar eru uppbyggilegar, yfirvegaðar og lausnamiðaðar samræður um áskoranir og umbætur og jafnframt markvissar upplýsingar af árangri og þróun í skóla- og frístundastarfi.
„Mosfellsbær getur verið stoltur af endurskoðaðri menntastefnu enda er Heimurinn okkar ef við stöndum rétt að málum. Það er og verður alltaf áskorun að tryggja öllum menntun við hæfi og að einstaklingar fái notið hæfileika sinna. Með þéttu samtali og samvinnu tel ég að fræðslunefnd hafi tekist að taka saman á einn stað stefnumarkandi áherslur og markmið sem eru til þess fallin að varða okkur farsæla leið. Okkar verkefni er að halda utanum fólkið okkar og styðja og efla þau í námi og grípa þau þegar þess þarf með.“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Bólið býður uppá fjölbreytt og lifandi starf
Félagsmiðstöðin Bólið býður uppá uppbyggilegt félagsstarf fyrir 10 til 16 ára börn og ungmenni og eru starfsstöðvarnar í Varmárskóla, Lágafellsskóla og Helgafellsskóla.
Snjallræði í Helgafellsskóla
Á næstu vikum verða birt myndbönd sem veita innsýn í skóla- og frístundastarf Mosfellsbæjar.
Menntastefna Mosfellsbæjar kynnt á fræðsludegi fyrir starfsfólk skóla- og frístundastarfs
Í gær var ýtt úr vör nýrri Menntastefnu Mosfellsbæjar sem ber heitið, Heimurinn er okkar.