Rúmlega 100 foreldar og börn mættu á vel heppnaðan fyrirlestur um samskipti barna og foreldra í gær þar sem boðið var upp á fræðslu og skemmtun í bland. Viðburðurinn var hluti af verkefninu Börnin okkar hjá Mosfellsbæ, sem hefur það m.a. að markmiði að efla foreldrasamstarf og styðja við jákvæð samskipti innan fjölskyldna.
Tekið var á móti gestum með tónlistaratriði frá efnilegum nemendum Tónlistarskóla Mosfellsbæjar þeim Eydísi Ósk Sævarsdóttur og Bjarma Hreinssyni sem heilluðu gesti með kraftmiklum flutningi. Að tónlistaratriðinu loknu tók Anna Steinsen frá KVAN við með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Sterkari saman“. Anna er einn vinsælasti fyrirlesari landsins og fjallaði á léttan og skemmtilegan hátt um samskipti milli foreldra og barna. Hún fór meðal annars yfir hvernig ýmis tjákn á samfélagsmiðlum – eins og þumlar, hjörtu og ávextir geta haft mismunandi merkingu eftir kynslóðum og aðstæðum. Megininntakið í erindi hennar var að vekja athygli á því hvernig kynslóðir landsins eru ólíkar, hvernig við getum skilið hvert annað betur, hvað við getum lært hvert af öðru og hvernig við getum nýtt okkur ólíka styrkleika hvers annars til að verða sterkari saman.
Viðburðurinn sem var vel sóttur og heppnaðist vel var samstarfsverkefni Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, Samtaka foreldrafélaga grunnskóla Mosfellsbæjar, félagsmiðstöðvarinnar Bólsins og Mosfellsbæjar.